12.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1547 í B-deild Alþingistíðinda. (2121)

67. mál, úrskurðarvald sáttanefnda

Ólafur Briem:

Þó að mál þetta sé nýtt í íslenzkri löggjöf, þá er það þó ekki nýtt í löggjöf annara landa. Eftir því sem skýrt hefir verið frá, er frv. þetta sniðið eftir lögum Norðmanna um þetta efni.

Hin fyrstu norsku lög, er hér ræðir um, voru gefin út árið 1869. Þá var hámark skuldamála, er sáttanefndum var ætlað að útkljá með úrskurði sínum 30 spesíur eða 120 krónur. En þessi lagafyrirmæli þóttu gefast svo vel, að 10 árum síðar (1879) var upphæðin hækkuð upp í 500 kr. — Í þessu frv. er upphæðin höfð 50 kr. fyrst um sinn, og ef það gefst vel, er sennilegt, að hún verði hækkuð síðar.

Sams konar frumv. og þetta hefir áður komið fram hér á þingi; það mun hafa verið 1893. Var það samþykt í Ed., en af því mjög var orðið áliðið þingtímans þegar það kom fyrir Nd., þá dagaði það þar uppi, kom aldrei frá nefndinni, er sett var til að íhuga það. Á aukaþinginu 1902 var málið aftur tekið til meðferðar, en fór á sömu leið, að það dagaði uppi í nefnd í Nd. Hefði því mátt búast við að næsta þing þar á eftir hefði tekið frumv. til meðferðar, en það hefir þó dregist alt til þessa. Er ástæða til að ætla, að það fái nú greiðan framgang í þinginu, þar sem það hefir fengið svo góðar viðtökur hér í deildinni.