16.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1574 í B-deild Alþingistíðinda. (2149)

104. mál, innlend vindlagerð o. fl.

Flutningsmaður (Magnús Blöndahl):

Eins og kunnugt er, þá samþ. síðasta þing lög um það að leggja toll á vindla, sem búnir væru til hér á landi.

Við umræðurnar um þetta mál á síðasta þingi var það tekið fram, að eins og þá hagaði til bæri að skoða tollinn á útlendum vindlum sem verndartoll á tilbúningi innlendra vindla og að ekki væri rétt að vernda þannig þennan innlenda iðnað, er vantaði þar að auki öll þau skilyrði, er til þess heyrði hér á landi. Innlend vindlagerð yrði því tekjugrein fyrir einstaka menn, en svifti landið um leið talsverðum tekjum.

Það urðu fáir til að mæla á móti þessari röksemdaleiðslu á síðasta þingi, en flestir reyndu að hamast með því, og fá þannig þann litla vísi til innlends iðnaðar eyðilagðan.

Þetta tókst ágætlega; og þeir sem höfðu byrjað á vindlagerð urðu að hætta við það, og töpuðu eigi alllitlu fé, er þeir höfðu lagt í þessa atvinnugrein. Það sem hefir því áunnist með nefndum lögum er ekki það, að útvega landssjóði tekjur, heldur í 1. lagi það, að margt fólk hefir orðið atvinnulaust; í 2. lagi það, að þau hafa eyðilagt þann vísi til innlends iðnaðar, sem um var að ræða í þessari grein; í 3. lagi, að gera þeim, sem iðnað þennan ráku, verkfæri þau og áhöld, er honum tilheyrðu, einskis virði, og í 4. lagi, að færa peninga út úr landinu, í staðinn fyrir inn í landið, Það er þess vegna eftir tilmælum frá einum þeirra manna, er tjón biðu við lögin frá 1907, að frumv. þetta er framkomið hér í deildinni.

Eg þykist ekki þurfa að mæla sérstaklega með því, vona að hin háttv. deild sjái, hversu sanngjarnt þetta er, að nema þetta ákvæði úr núgildandi lögum. Það er heldur ekki nóg með það, að tollur væri lagður á innlenda vindlagerð, heldur var þeim gert að skyldu, er þennan iðnað vildu reka, að kaupa sérstakt borgarabréf, er kostar 100 kr., eða helmingi hærra en önnur borgarabréf.

Þar sem það er sýnilega áreiðanlegt, að árangurinn af lögum þessum frá 1907 hefir orðið sá, er eg hefi bent á, og landssjóður hefir ekki eins eyris hagnað af þeim, þá vona eg að það dyljist ekki neinum, að rétt sé að fella lögin úr gildi. Vona að deildin taki vægilega á þessu máli og lofi því fram að ganga, og legg eg til, að 5 manna nefnd sé kosin í málið.