08.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1649 í B-deild Alþingistíðinda. (2207)

110. mál, þingtíðindaprentun

Pétur Jónsson:

Mér datt það ekki í hug, að nú mundu verða svona langar umr. um þetta frumv., fanst það óþarft. En það skal eg taka fram, að eg hefi verið hálf-tvíbentur í þessu máli, mér hefir frá upphafi þótt umræðupartur alþingistíðindanna nokkuð dýr bók.

En eitt er mér kappsmál og það er það, að sú staðhæfing, er háttv. flutningsm. (B. J.) bar fram við 1. umr., að víða væri ekki skorið upp úr alþingistíðindunum, sé ekki látin ráða úrslitum í þessu máli.

Háttv. flutningsm. (B. J.) þótti ekki mikið mark takandi á því, þó að alþingistíðindin væru nokkuð lesin í Mývatnssveit og víðar í Þingeyjarsýslu af þeirri ástæðu, að Þingeyingar væru alkunnar »alætur« á alt prentað mál. — Einnig gerði hann nokkuð lítið úr kunnugleik mínum til sveita; eg mundi hvergi til þekkja nema í mínu héraði. Af því virtist hann svo draga þá ályktun, að kunnugleikinn væri hans annarsstaðar á landinu. En eg get fullvissað hann um það, að eg hefi ferðast um miklu fleiri sveitir þessa lands, en hann. Eg hefi þar að auki lifað alla mína daga, sem alþýðumaður uppi í sveit, en það hefir hann ekki gert. Mér er því kunnugra en honum um líf og háttu alþýðu, og mér er það kunnugt, að býsna margir alþýðumenn eru all-vel heima í ræðuparti alþingistíðindanna, og njóta þar af bæði gagns og ánægju.

Eg tel það beinar öfgar hjá háttv. flutningsm. (B. J.), að menn í Þingeyjarsýslu séu nokkuð verulega frábrugðnir öðrum alþýðumönnum hér á landi, hvað lestrarfýsn og bókafróðleik snertir, sízt í hinum betri héruðum. Yfir höfuð að tala er íslenzk alþýða mjög hneigð til bóka. Hitt getur verið, að einstaka hérað sé hér frábrugðið, en einmitt slík héruð ættu að standa til bóta.