23.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1699 í B-deild Alþingistíðinda. (2227)

111. mál, Landssjóðshluttaka í Thorefélaginu

Magnús Blöndahl:

Eg hafði ekki ætlað mér að segja neitt við þessa umræðu málsins, en samt hefir mér fundist það skylda mín að minnast nokkrum orðum á þetta mál, því að það er svo mikilsvert, svo stórt og eg vil segja svo gott, að það er blátt áfram skylda að ganga ekki þegjandi fram hjá þeim fjarstæðum, sem bornar hafa verið fram af mönnum þeim, er virðast leggja alt kapp á það, að málið verði drepið við 1. umr.

Eg skil ekki, hvernig háttv. þingmenn geta verið því mótfallnir, að þingdeildinni gefist kostur á því að kynna sér jafn-mikilsvert mál og nú liggur fyrir hér án þess að láta persónuleg áhrif ráða þar nokkru um.

Af því að eg var einn af þeim, sem að minsta kosti framan af var deigur við þetta fyrirtæki, þá hefir mér fundist það skylda mín samvizku minnar vegna og vegna landsmanna víðsvegar um landið, að stuðla að því eftir mætti, að þetta mál fengi að ganga til 2. umr., svo að mönnum gefist enn betri kostur á því að athuga það.

Það lítur óneitanlega einkennilega út, hvernig andstæðingar þessa frumv. rísa nú upp hver á fætur öðrum til þess, að »procurera« fyrir Sameinaða gufuskipafélaginu af öllum sínum litlu kröftum, en sparka svo við þessu tilboði, er hér liggur fyrir, án þess þó að færa nokkra sennilega ástæðu fyrir orðum sínum eða gerðum í þessu efni.

Málfærsla þessara manna fyrir hönd Sameinaða gufuskipafélagsins, er svo léleg, að einmitt hún styrkir mig í þeirri skoðun, að hér muni eitthvað liggja á bak við, sem vert væri að gjalda varhuga við. (Hannes Hafstein: Hvað er það?). Þingmaðurinn veit það vel. Það mætti færa rök að því, og það lítur svo út, sem menn vilji loka augunum fyrir framkomu Sameinaða gufuskipafélagsins, er menn hafa nú lengi átt við að búa. Þeir virðast hafa lokað augunum fyrir því, hvernig þetta félag hefir hegðað sér gagnvart landsmönnum, sem hafa þó auðgað það eigi all-lítið.

Það var réttilega tekið fram af hv. framsm. meiri hlutans (B. Kr.), að það væri lítt mögulegt, eða jafnvel alsendis ómögulegt fyrir kaupmenn eða aðra að fá bætur fyrir skaða þann, er þeir hafa oftsinnis orðið fyrir á vörum sínum í flutningum þessa félags. Það er oftast ekki annað að hafa úr þeirri átt en ónot, ef minst er á slíkar skemdir. Það hefir þrásinnis komið í ljós, að Sameinaða gufuskipafélagið furðar sig jafnvel á þeirri ofdirfsku landsmanna, er krefjast skaðabóta. — Sjálfur hefi eg oft orðið fyrir töluverðum skaða í þessu efni, og aldrei fengið annað svar við umkvörtun minni, en bert og kalt nei.

Að því er snertir hitt atriðið, og einnig má leggja áherzlu á, að félagið hefir oft sýnt farþegum ókurteisi, þá get eg að vísu lýst yfir því, að sjálfur hefi eg ekki orðið fyrir því, en eg hefi bæði séð það og heyrt, að aðrir hafa mætt ókurteisi af hálfu þjóna þessa félags.

Þess má einnig geta, að það er næstum því ótrúlegt, hvað þetta félag hefir boðið sér gagnvart landsmönnum, t. d. kaupmönnum. Skipin hafa oft siglt burt með vörur þeirra á aðrir hafnir, áður en þau hafa skilað vörunum hér. (Jón Ólafsson: Það hefir Thore-félagið einmitt gert). Það getur verið, að Thore-félagið hafi gert það, en það eru engar málsbætur fyrir Sameinaða félagið.

Þrásinnis hafa verið gerðar umkvartanir við þetta félag, en mér er ekki kunnugt um, að þær hafi nokkurn tíma verið teknar til greina; félagið hefir hummað það fram af sér, það hefir reynst eins og stökt væri vatni á gæs að koma með slíkar umkvartanir við félagið.

Eg þykist vita, að þeir sem hlut hafa átt að máli (stjórnin) hafi ekki gengið slælega fram í því að rétta hluta landsmanna í þessu efni, þeir hafa eflaust gert það, sem þeir gátu í þá átt.

Um framkomu Sameinaða félagsins mætti annars mikið segja, ef alt væri tínt til.

Því hefir verið skotið að mér, sem eg vissi ekki áður, að enn þá væri ekki búið að gera upp »Ceres«-strandið (við Færeyjar). Hættan, sem málfærslumenn Sameinaða félagsins sjá af því, að landið skifti sér nokkuð af skipaferðunum — hún er ekki annað en grýla.

En væri það engin grýla, ef öll samkepni við þetta félag hætti?

Þessir menn virðast hafa þá öruggu sannfæringu, að skip Sameinaða félagsins hafi siglt og muni sigla hingað til lands af einskærri ást til vor Íslendinga, og það jafnvel þótt félagið biði halla af því, það telji ekki eftir sér að fleygja út hundruðum eða jafnvel þúsundum króna til Íslendinga! — Þegar svo langt er nú komið, að haldið er fram annari eins fjarstæðu og þessari, þá hygg eg, að naumast verði lengra komist. Mundi nokkurt félag vilja annast slíkar ferðir, ef enginn hagur væri af því? Það er óhugsanlegt, enda er mér kunnugt, að félagið hefir sjálft sagt, að það hefði hag af Íslands ferðunum; raunar hafi það beðið halla af strandferðunum — en millilanda-ferðirnar munu hafa marg-borgað það.

Háttv. fyrverandi ráðherra gat þess, að hann hefði gert sitt til að sæta sem beztum kjörum hjá þessu blessaða félagi, og mér dettur ekki í hug, að efast um það, að hann hafi gert það, sem hann gat, til þess að fá hina beztu og hagfeldustu kosti hjá félaginu, en árangurinn hefir nú sýnt sig. Og hver er hann? Hverjir eru hagsmunirnir? Ef til vill hefir hann ekki getað fengið betri kjör fyrir þá sök, að enginn keppinautur var fyrir hendi. En það er þó næsta ólíklegt, að Sameinaða félaginu hafi ekki verið kunnugt um Thore-félagið — svo oft hafa þó skip þess félags verið hér í förum.

Thore-félagið hefir einmitt stuðlað að því, að fargjaldið milli Íslands og Danmerkur var fært niður; Sameinaða félagið fylgdi svo dæmi þess — og það eitt sýnir þó ljóslega, að Sameinaða félagið hefir þó að minsta kosti orðið vart við tilveru Thore-félagsins.

En það lítur óneitanlega nokkuð kynlega út, að nú á síðustu stundu er hér staddur umboðsmaður Sameinaða félagsins, er þykist hafa ótakmarkað umboð til að semja um þetta mál. Ef þetta skyldi nú vera satt, hvers vegna býður þessi maður þá ekki góð boð, þegar nefndin hefir kallað hann á sinn fund, og hann átt kost á því að tala við hana? Hvers vegna á það að bíða? Jú, það er verið að reyna í lengstu lög að raka krónunum íslenzku í danska vasa!

Þá vil eg skjóta því hér inn í, að það má heita undarleg aðferð hjá Sameinaða félaginu að gefa að eins einum manni úr nefndinni kost á skýrslum og upplýsingum í þessu efni, en ekki nefndinni í heild sinni. — Slík framkoma af hálfu erindreka félagsins bendir á það, að mjög vafasamt sé, hvort hér sé farið eftir venjulegum kurteisis-reglum. Eg lít svo á, að þessi framkoma umboðsmannsins gagnvart nefndinni sé blátt áfram vítaverð. En það getur nú verið gott, fyrst Sameinaða félagið á í hlut, munu hinir mörgu málsvarar þessa félags hér ef til vill segja eða hugsa.

En alt þetta: tilraun háttv. fyrverandi ráðherra, að gera sitt bezta, er varð árangurslaus, og aðferð umboðsmannsins við nefndina, það er svo vaxið, að eg mun hugsa mig tvisvar um það, áður en eg vil nokkuð hafa saman við þann mann (umboðsmann) að sælda.

Eg skal leyfa mér að benda á það, hvernig Sameinaða félagið tók málaleitun um það, að ferðum yrði hagað hagkvæmar við Ísland, en gert væri, t. d. þegar það kom til mála fyrir skömmu að fá beinar ferðir milli Íslands og Þýzkalands. Það mun flestum kunnugt, hvernig því var tekið.

Háttv. 1. þm. Eyf. (H. H.) tók það fram áðan, að aðal-ástæðan til þess, að þetta samband fékst ekki, hafi verið sú, að við ransókn hafi það reynst svo, að flutningar frá Þýzkalandi beina leið til Íslands mundu ekki nema meiru en svo, að ekki þyrfti til þess nema fáeina járnbrautarvagna. Það getur nú verið, að þetta megi bera á borð fyrir þá menn, sem ekki eru verzlunarfróðir, eða ekki þekkja neitt til, en að bera slíka fjarstæðu fram fyrir þá menn, sem eitthvað þekkja til í þessu efni, það nær blátt áfram engri átt.

Það var réttilega tekið fram af h. framsm. meiri hl. (B. K.) að flutningsgjald á þeim vörum, er kæmu hingað yfir Khöfn frá Þýzkalandi, hafi hækkað mikið við þennan krók, í stað þess að vörurnar gengju beina leið. Þetta er svo auðskilið, að eg þarf ekki að skýra það nánar.

En Sam. fél. sér það, að ef vér fáum beinar samgöngur við framleiðslulandið (Þýzkaland), þá bíða danskir umboðsmenn halla af því; félaginu er ant um að efla hag þessara manna, en skeytir minna um hag veslings Íslendinganna.

Þá hefir verið minst á Vestu-útgerðina, en það er að eins grýla, er eg hygg enga hættu stafa af. Háttv. frsm. meiri hl. (B. K.) hefir skýrt þetta atriði, en eg vil bæta því hér við, jafnvel þótt framsm. hafi einnig tekið það fram, að það er als ekki rétt að halda því fram, að landið hafi beðið svo og svo stóran halla af þessari útgerð. Halli landssjóðs varð að vísu á annað hundrað þús. kr., en óbeinlínis hefir þetta þó orðið landinu gróði. Það hlýtur að vera stórgróði í því fólginn, að landið tók sjálft að sér ferðirnar og gat hagað þeim eftir vild, sett niður fargjöld og farmgjöld, er numið hafa mörgum tugum þúsunda.

En hins vegar varð margt til þess, að útgerðin lánaðist ekki betur, eins og háttv. framsm. (B. K.) tók fram; t. d. óheppilegt val á forstjóranum, að honum alveg ólöstuðum; hann var ókunnur í þessu efni og því engin von að betur tækist til. Auk þess lenti hann í klónum á félaginu, er hann átti að keppa við. Hann hrepti einmitt skipið, er brúkaði helmingi meiri kol en önnur skip félagsins. Þá varð hann og að ganga að því skilyrði, að ekki mætti hann gefa nema svo og svo miklar prósentur af þeim vörum, er hann flytti.

En til þess þannig að drepa þennan vísi til íslenzkra skipaferða, hafði Sam. félagið í laumi gert þann samning við kaupmenn, að ef þeir flyttu vörur sínar með félagsskipum, þá skyldi félagið stinga 10% af flutningsgjaldinu í vasa þeirra.

Ef sá hagur, sem óbeinlínis varð af Vestu-útgerðinni yrði allur reiknaður, þá er eg sannfærður um, að hann yrði miklu meiri en hinn beini halli.

Svo er ríkissjóðstillagið. Háttv. 1. þm. Eyf. (H. H.) efaðist um, að stjórnin íslenzka mundi geta fengið nokkur yfirráð yfir því tillagi.

Eg heyrði nú að vísu ekki, hvernig hinn háttv. þm. fór að rökstyðja þetta, en þar sem einmitt hann sem ráðherra fékk þó þessi yfirráð um eitt ár — er þá nokkur ástæða til að ætla, að núverandi stjórn muni ekki einnig takast það? Eg leyfi mér að treysta því að óreyndu, að það muni takast.

Getur verið, að sumir af háttv. þm. séu hrifnir af grein, er stóð í útlendu blaði, þar sem forstjóri (direktör) Sam. gufuskipafélagsins talar við danskan mann; segir hann þar um ríkissjóðstillagið: »Það má ganga að því sem vísu, að Sam. fél. heldur þessu tillagi eftirleiðis; það hefir haft það í svo mörg ár, að næsta ólíklegt er, að stjórnin fari nú að taka þennan styrk frá félaginu«.

Fleira er sagt í þessari grein, t. d. um kaupmenn, og tel eg óþarft að taka það upp hér.

En þessi orð forstjóra Sam. félagsins sanna ekki neitt í þessu efni. Það eitt er ljóst, að hann vill fá styrkinn. En þó að yfirpóstmeistari Dana hafi haldið því fram, að Sam. fél. hlyti að fá þennan styrk, þá eru þau ummæli hans algerlega þýðingarlaus. Hann hefir þar ekki meira að segja en hver okkar hér. (Jóhannes Jóhannesson: Svo?) Eg heyri, að einhver háttv. þm. ber brigður á þessi orð mín, en þá vil eg leyfa mér að biðja sama háttv. þm. að sýna mér hið gagnstæða.

Þá gat háttv. 1. þm. Eyf. (H. H.) þess., að hann hefði átt tal við Tulinius og spurt hann, hvort hann mundi gera nokkuð tilboð um skipaferðir og hafi Tulinius þá neitað því. Eg vil nú leyfa mér að spyrja háttv. 1. þm. Eyf. (H. H.): Gat hann vel vænst þess af Tuliniusi, að hann færi að semja nokkuð við hann? Var ekki síðasta stjórn og þing búin að sýna Tuliniusi þá meðferð, að óeðlilegt hefði verið að hann hefði getað samið neitt við slíka stjórn? (Hannes Hafstein: Sannarlega ekki!) Það er nú hver blindur í sjálfs sín sök og þingtíðindin geta sannað framburð minn í þessu efni; þar sést, hvernig stjórnin og löggjafarvaldið þakkaði Tuliniusi þau hlunnindi, er útgerð hans ómótmælanlega hefir veitt samgöngum vorum.

Það er honum að þakka, að fargjaldið var fært niður hjá Sameinaða félaginu. Það er honum að þakka, að landið hefir grætt — ekki tugi, heldur hundr. þús. kr. á samgöngubótunum.

Eg skal svo ekki fara lengra út í þetta mál nú, en mun gera það við 2. umr., ef þörf gerist.

Þó vil eg geta þess, áður en eg lýk máli mínu, að mér virðist nokkuð undarleg framkoma þeirra háttv. þm. hér í deildinni, er gerst hafa málaflutningsmenn Sameinaða félagsins; þeir eru að tala um, hve léleg þessi skip séu, er hér ræðir um. En hafa þeir sömu háttv. þm. þá ekki litið á frumv. það, er nú liggur fyrir um þetta efni, þar sem einmitt er tekið fram, hvernig skuli fara að, ef einhverju atriði reynist ábótavant?

Það er næsta ótrúlegt, að þessir menn ímyndi sér, að engin tök séu á að fá menn til að virða skipin, er geti verið nógu samvizkusamir og sérfróðir, til þess að hagur landsmanna sé fyllilega trygður. Eg get ekki skilið annað en að slíkir menn meti svo rétt sem kostur er á, og taki nægilegt tillit til þess, hversu skipin kynnu að hafa fallið í verði.

Eg skal svo ekki þreyta háttv. þingdeildarmenn á lengri umr. um þetta mál, en eg vil enda orð mín á þá leið, að ef málsvarar Sam. fél. vilja endilega koma þessu frumv. fyrir kattarnef, þá hefðu þeir ekki átt að fara eins geyst á stað, eins og þeir hafa gert. Það munu fleiri en eg líta svo á, að þeir hafi sótt þetta mál meira af kappi en forsjá. Og málið er í sjálfu sér svo mikils vert, að það væri hreinasta óhæfa að drepa það nú við 1. umr.

Eg ber líka það traust til kjósenda þessa lands, að þeir kunni að meta slíka framkomu, ef hún verður ofan á í þessu máli.