08.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 481 í B-deild Alþingistíðinda. (228)

10. mál, vátryggingarfélag fyrir fiskiskip

Framsögum. (Ágúst Flygenring):

Viðvíkjandi því, sem hv. 2. kgk. talaði um að bæta inn á milli sviga í 4. gr., þá er eg ekkert á móti því, að það verði tekið upp við 3. umr. En eg álít, að það geri svo sem hvorki til né frá, því að það væri hvort sem er tæplega tæmandi. Við 1. gr. er það skýrt, hvað við sé átt. Þegar það stendur í lögunum, þá er auðsætt að gera þau skilyrði gildandi, sem vera ber og krafist verður. Viðvíkjandi sjálfsábyrgðinni má líta svo á, að það sé allmikill hluti, þegar hún er ákveðin 25%. Hvað snertir skaðabætur, þegar á að greiða þær samkvæmt 6. gr., þá er markið það, að það sem ekki nær 2%, þá er það lítill skaði og þá geti ekki komið til greina að bæta hann alment. En þegar hann þó er orðinn 500 kr., þá er skaðinn orðinn fram yfir það vanalega smá-»havarí«, og þá orðinn svo mikill, að rétt er að bæta hann, og í þeim tilfellum er samábyrgðin skyld að borga. En það er ekki eins mikil freisting og menn halda, að gera minni skaða stóra. Auðvitað skal eg ekki bera á móti því, að það er freisting að komast upp að takmarkinu, til þess að fá hlutinn bættan, en við þeirri freistingu verður aldrei spornað, og alt af verður maður að hafa eitthvert lágmark. Eg skal lofa því, að nefndin taki þessi atriði, sem háttv. 2. kgk. þm. benti á, til athugunar. Án þess að eg þó sjái, að hægt sé að bæta úr þessum ákvæðum, nema með því að búa til »skala« og setja fast verð. En þetta skal, sem sagt, verða tekið til athugunar í nefndinni, og gert eins vel og hægt er.