11.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1977 í B-deild Alþingistíðinda. (2442)

139. mál, áætlanir og mælingar verkfræðings

Ólafur Briem:

Breytingartill. þær, sem eg er riðinn við á þingskjali 150, eru þrjár. Hin fyrsta í staflið b. viðvíkjandi brú á Héraðsvötn. Þó undarlegt megi virðast er enn þá engin brú komin á það stór-vatnsfall nema aðra kvíslina austan Hegraness. Þar hafa að vísu oftar en einu sinni verið skoðuð brúarstæði, en áætlanirnar hafa verið mismunandi, svo að ekki mun af veita að gera nýjar rannsóknir, ef málinu á að verða nokkuð ágengt.

Önnur viðaukatillaga mín í staflið d. er snertandi bryggjugerð og hafnarbót á Sauðárkrók; skal eg skýra það, að hugsunin er ekki sú að bæta skipaleguna sjálfa, það yrði alt of dýrt, heldur að eins lendinguna. Þar er eins og menn vita oft brimasamt, svo að torvelt er að komast að landi. Til dæmis þegar Ceres var seinast á ferðinni í vetur, var búið að fylla 4 uppskipunarbáta með vörum til flutnings í land, en þeir urðu allir að snúa við sökum brims við lendinguna og skila vörunum aftur í skipið. Þannig getur það oft og tíðum átt sér stað, að naumast sé unt að lenda eða koma vörum óskemdum á land, þótt vel sé hægt að athafna sig við skipshliðina, Til þess að bæta úr þessu hefir bæði verið stungið upp á því að lengja tangann, sem Gönguskarðsá hefir myndað norðanvert við skipaleguna, og í annan stað hefir verið stungið upp á því að búa til fasta bryggju, þar sem hentugast þætti til uppskipunar. Með því móti væri hugsanlegt að bæta mætti úr þessum annmörkum að miklu leyti.

Þá er hér breytingartill. í staflið e. um vegalagningu yfir Gönguskörð, sem oftar en einu sinni hefir komið til orða á sýslufundum, en áður en farið væri að leggja út í kostnað við það, er nauðsynlegt að athuga það nákvæmlega. Síðan póstleiðinni í Húnavatnssýslu var breytt fyrir nokkrum árum og póstvegurinn lagður um Blönduós, hefir það komið til orða að leggja póstleiðina frá Blönduósi og til Sauðárkróks yfir Gönguskörð, en um kostnað við þá vegalagningu hefir engin áætlun verið gerð.

Með því að hér er um þýðingarmikil mál að ræða, vonast eg til að hin h. deild samþ. þessar viðaukatillögur. —