13.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1994 í B-deild Alþingistíðinda. (2462)

141. mál, skjöl í Árnasafni

Fyrirspyrjandi (Benedikt Sveinsson):

Eg hefi ekki ástæðu til annars en þakka ráðherranum fyrir skýrsluna. En þar sem hann benti á, að aðra leið hefði mátt fara með fyrirspurnina, þá felst eg als ekki á það. Alþingi fól honum að inna þetta erindi af hendi og þá er sjálfsagt, að hann geri því grein fyrir því, hvað hann hefir aðhafst til að koma því fram. Hitt er óviðfeldið og öfugt, að einstakir þingmenn sé að rápa til stjórnarráðsins með fyrirspurnir um slíkt. Enda var ætlast til af þeim þingm., sem flutti þingsál.tillöguna upphaflega, að þinginu yrði gefin skýrsla um athafnir stjórnarinnar í málinu.

Það er einnig augljóst, að ekki veitir af því, að þingið haldi málinu vakandi og mun eg síðar á þinginu bera fram nýja þingsályktunartill. í samráði í við aðra háttv. þingdm., ef það verður talið nauðsynlegt til þess að minna þá stjórn, sem nú tekur við, á það sem óunnið er í þessu máli.