18.02.1909
Sameinað þing: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 38 í B-deild Alþingistíðinda. (2519)

Umræður um kosningu Seyðisfjarðarkaupstaðar

Bjarni Jónsson:

Eg skal að eins gera örfáar athugasemdir um sumt, sem sagt hefir verið.

Eg er samþykkur virðulegum þingm. Vestm. um ályktarorðin, eins og þm. N.-Ísf.

Aðalatriði málsins er það, hver sé þingmaður og hvenær hann verður það. Það er jafnljóslega eftir anda laganna, að sá er rétt kjörinn þingmaður, sem hefir löglegan meiri hluti atkv., sem hitt, að kjörbréf kjörstjórnar er að eins vottorð um talningu, en er enginn úrslitagerningur, er megi eigi leiðrétta, ef skakt reynist talið. Nú hefir alþingi úrskurðað, að síra Björn Þorláksson hafi hlotið fleiri lögleg atkvæði en hitt þingmannsefnið, og er þá sú afleiðing þess úrskurðar, að hann einn er réttur þingmaður. Úrskurður kjörstjórnar, sem þm. Borgf. gerði mikið úr, verður ómerkur, þegar æðsta úrskurðarvald slíkra mála, alþingi, hefir felt hann. Úrskurður alþingis á dögunum þýðir það beint, að síra Björn hefir alla tíð frá kosningu í haust verið rétt kjörinn þingmaður. Það má undarlegt heita, að þeir menn skuli á dögunum hafa vísað kosningu síra Björns til nefndarinnar, sem nú þykir engin ástæða til að taka kosninguna gilda. Þetta er öndvert við heilbrigða skynsemi og sett lög. Ef þessi stimpill, kjörbréfið, er rangur, verður ekkert á honum bygt.

Það er og ekki rétt hjá virðul. þm. Borgf., að réttur kjósenda kaupstaðarins sé fyrir borð borinn, ef kosning síra Björns er ekki ógild gerð; því fer fjarri. Það er réttur kjósenda frá 10. sept. í haust, sem er fyrir borð borinn, ef maðurinn er ekki tekinn gildur, því að þeir kjósendur eiga heimtingu á að þeirra atkvæði sé tekið gilt, enda óþarft að fara öðru fram að nauðsynjalausu.

Hér hafa margir vitrir og lærðir lögfræðingar talað um ógildingarvald alþingis. Eg get bent á marga lærða lögfræðinga, sem segja að alþingi hafi einnig úrskurðarvald í þessum málum, enda geta menn gengið úr skugga um það, að svo sé, með því að líta í kosningarlögin. Í 41. gr. þeirra segir svo: »... og sker alþingi úr því síðar, hver áhrif það skuli hafa á kosninguna.« Hér eru alþingi engin takmörk sett, enda mundi það hafa verið sett í lögin, ef eingöngu hefði átt verið við ógildingarréttinn

Framsm. minnihlutans tók það réttilega fram, að síra Björn væri rétt kjörinn eftir 29. gr. stjskr., því að þar er um enga stimpla að ræða. Þegar því úrskurðað er, að Valtýr hafi færri atkvæði fengið og kosningin er að öðru leyti lögleg, þá er síra Björn kosinn samkvæmt lögum, en ekki andstætt þeim.