19.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 57 í B-deild Alþingistíðinda. (2534)

Lausnarbeiðni varaforseta efri deildar

Steingrímur Jónsson:

Eg skal ekki vera langorður. Mér finst ekki ástæða til þess að tala um þá lögfræðislegu hlið á málinu, hvort það sem hér er farið fram á sé brot á stjórnarskránni eða þingskp., heldur vil eg að að eins tala um hina praktisku hlið málsins.

Mér skilst svo sem háttv. varaforsetar komi með þessa beiðni af því þeim finnist þeir ekki hafa rétt til þess að segja af sér, en að deildin geti leyft það. Þannig liggur spurningin fyrir mér sem minni hluta manni, sem á að gefa svar upp á hana. Er þá ástæða til þess að gefa þessa lausn? Eg get ekki gefið atkvæði mitt með henni, nema því að eins að eg sé sannfærður um að verulegar ástæður séu fyrir hendi.

Ef farið er að rekja þingsköpin sundur lið fyrir lið, þá er ekki vafi á því að það er ekki ætlast til, að slíkt geti komið fyrir, sem hér ræðir um; þess vegna er tekið fram að forsetarnir skuli vera 3 og skýrt ákveðið, að þeir skuli sitja allan þingtímann.

Þá vil eg aftur víkja að aðalspurningunni. Er nokkur knýjandi ástæða til þess að veita þessa undanþágu? Og eg verð að svara, að eg get ekki séð hana. Það er búist við að forsetarnir verði fjarverandi um 3 vikna tíma. Nú stendur svo á, að síðasta vikan fellur saman við væntanlegt páskafrí þingsins og þá yrðu ekki nema 14 eða 15 þingdagar á þessum tíma. Þá er spurningin, hvað á deildin að gera á meðan? Eg skal viðurkenna, að ef deildin sæti vinnulaus, þá væri ástæða til að veita þessa beiðni. En það er engan veginn svo. Nú eru á ferðinni hér um bil 60 þingmannafrumvörp, og flest öll rýr; af þeim er víst búið að fella 7, svo að eftir eru rúml. 50. Sum eru hér í deildinni, og sum í Nd. á leið hingað. Af þessum frumvörpum eru ekki nema eitthvað tvö, sem hugsanlegt væri, að skiptu þessari deild eftir flokkum. Og eg sé ekki að það væri hættulegt, að geyma þau, þangað til forsetar koma aftur, sérstaklega til þess að nýi ráðherrann geti tekið þátt í meðferð þeirra. Þá eru eftir um 50 þingmannafrumvörp, sem ekkert snerta flokkaskifting og í stjórnarfrv. er ekkert flokksmál nema sambandslagamálið, og þykir mér ekki líklegt, að það muni komast hingað fyrir páska. Eg sé ekki annað, en að deildin hafi nóg að starfa. Það er talað hér á þinginu, að 2. umræðu fjárlaganna verði lokið í Nd. á sunnudagsnótt. Henni hefi verið flýtt um of, svo að það er líklegt að hér verði að athuga frv. nánar en venjulega gerist. Það mætti því kjósa fyr í fjárlaganefnd og er eg fyllilega samþykkur því, að í þá nefnd verði kosið eftir sama hlutfalli og í aðrar nefndir.

Eg get því ekki séð, að meiri hlutinn eigi mál sín í nokkurri hættu og þó um sjálf fjárlögin væri að ræða, er enginn háski á ferðum, því að 3. umr. yrði ekki fyr en eftir páska, og þá yrði samt eftir sameinað þing. Það er þess vegna augljóst, að við getum ekkert gert.

Eg vil enn fremur leyfa mér að benda á, að umsókn háttv. varaforseta er dálítið ónærgætin gagnvart okkur konungkjörnu þingmönnunum; því það lítur nærri því út fyrir, að við séum álitnir samvizkulaus og harðsnúin sveit. sem ekki sé hægt að vinna með, nema með afgerðum meiri hluta.

Háttv. flutnm. lagði allmikla áherzlu á, að þetta væri komið fram fyrir óvæntan atburð, að atkvæði yrðu nú jöfn hér í deildinni. Þetta lét undarlega í mínum eyrum. Hafði háttv. þm. ekki hugsað sér, að konungur mundi kveðja að minsta kosti einn mann á sinn fund? Og gat sá þingm. ekki orðið einmitt úr efri deild? Þetta var engan veginn óhugsandi um háttv. forseta okkar. Þeir góðu herrar hefðu átt að búast við slíku og fara öðru vísi að við þingsetningu í vetur.

Hæstv. ráðh. og 1. varaforseti bentu á fordæmi frá Danmörku 1905. Það er ekki heppilegur »parallel«. Því að í Danmörku eru ekki sömu þingsköp og hér. Þar eru þingsköp ekki annað en þingsályktun, en hér eru þau lög. Þar að auki var það regla fram undir þann tíma, er hér er um að gera, að kjósa forseta á hverjum mánuði. Og enn fremur var sérstök ástæða fyrir Trier að ;segja af sér, af því að Reformpartiet klofnaði einmitt þá dagana, ráðuneytið sagði af sér og lá við byltingu. Þá kom að því að báðir forsetar þingsins voru úr minsta flokkinum, 13 manna flokkinum, og var þá ekki nema eðlilegt, að þeir sætu ekki lengur, heldur segðu af sér. En á næsta fundi kaus þingið aftur Trier forseta, og sýnir það, að mönnum þótti undarlegt og athugavert það fordæmi, sem átti að innleiða.

Eg skal svo ekki tala frekar um þetta, en lýsi yfir, að mér sýnast engar ástæður fyrir hendi, sem geti knúð skynsama menn til að taka beiðni forsetanna til greina. Hinsvegar er hún hættuleg, því að eg sé ekki betur en að hver og einn geti þá neitað að taka við kosningu. Ef forsetar geta á annað borð sagt af sér og þar að auki láð deildinni, að hún vill ekki samþykkja lausnarbeiðni þeirra, þá er afleiðingin, eins og eg tók fram, blátt áfram sú, að menn geta neitað að láta kjósa sig í embætti þingsins.