19.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 71 í B-deild Alþingistíðinda. (2539)

Lausnarbeiðni varaforseta efri deildar

Steingrímur Jónsson:

Eg ætlaði ekki að standa upp aftur, en ræður manna hafa snúist svoleiðis, að eg vil gera dálitlar athugasemdir. En eg vil halda mér innan sama ramma og fyr og taka málið hreint praktiskt. Háttv. þm. Ísf. sagði að eg hefði sagt, að það væru engar ástæður fyrir forseta til að biðjast lausnar. Það sagði eg ekki, heldur að það væru engar verulegar ástæður. Mér finst að það væri full ástæða til að láta okkur vita hverjar þessar ástæður eru, en eg þykist reyndar hafa sýnt fram á, að þessar ástæður geta ekki verið til. Eg held því ennfremur fram, að þeir forsetar, sem yrðu kosnir, gætu neitað að taka á móti kosningu.

Eg er ávalt þakklátur háttv. þm. V.-Ísf. fyrir góð ráð, en það stendur svo á hér, að hver einstakur þingm. verður að gæta virðingar sinnar gagnvart sjálfum sér og þjóðinni. Eg er þakklátur háttv. varaforsetum deildarinnar fyrir þá yfirlýsing þeirra, að þeir ekki með beiðninni hafi viljað gefa í skyn, að þeir hefðu ótrú á mótstöðumönnum sínum um það, að þeir mundu fara illa með það vald, sem þeim er gefið. Mér fanst þessi skilningur á beiðninni liggja svo nærri, að yfirlýsing af þeirra hálfu væri nauðsynleg. Eg er því þakklátur fyrir það sem þeir hafa sagt. Eg held fram, að deildin hafi nóg að gera sérstaklega með fjárl. alt fram að 2. umr., en fyr en við 2. umr. er ekki hægt að drepa neitt. Enda gætu þeir haft 3:2 í fjárlaganefnd ef þeir vilja taka mig trúanlegan. Þess vegna vil eg mótmæla því harðlega, að það þurfi að hafa kostnað í för með sér að þessi lausnarbeiðni yrði ekki veitt. Auðvitað hlýtur þetta þing að standa lengur en vanalega, að líkindum fram í lok aprílmán., og verða þannig dýrara. En það er engin þörf að grípa til þess óyndisúrræðis að fresta því meðan forsetarnir eru fjarverandi. Og þar sem háttv. þm. Ísf. sagði að það væri á ábyrgð minnihl., að þinginu yrði frestað, þá vil eg bæði neita því að svo sé, og hins vegar lýsa yfir, að hann mundi ekki kikna undir þeirri byrði.

Háttv. þm. Ísf. sagði, að eg hefði sagt að það hefði verið samkv. þingsköpum að Trier sagði af sér, en eg sagði að eins, að hann hefði sagt af sér í lok fundar, en á fundi næsta dag verið kosinn aftur í einu hljóði. Eins og eg tók fram, getur þetta ekki orðið tekið sem fordæmi hjá okkur, því þingsk. dönsku eru langtum lausari í sniðum en vor, sem eru lög. T. d. held eg, að fram undir þann tíma sem Trier sagði af sér hafi forseti aldrei verið kosinn til lengri tíma en 1 eða l/2 mán. Það sem þm. Ísf. las upp var þingsk. frá 1. apríl 1905 fyrir landsþingið en ekki fólksþingið.