19.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1230 í B-deild Alþingistíðinda. (2591)

144. mál, skipun læknishéraða Norðfjarðarhérað

Pétur Jónsson:

Eg vil stuttlega leyfa mér, að lýsa afstöðu minni í þessu máli, af því eg átti sæti í nefndinni. — Mér þótti það leitt, að þetta frumv., sem nú er verið að ræða, stóð á undan frumv., sem kemur næst á eftir á dagskránni; það frumv. er víðtækara, þegar breyt.till. við það eru teknar með. — Ef þetta frumv. og eitthvað af breyt.till. verður samþykt, þá iðrast eg máske eftir að hafa greitt atkvæði gegn þessu frumv., en það geri eg af því eg er eins og háttv. þm. Vestm. (J. M.) á móti allri læknafjölgun, að svo stöddu.

Eg álít varhugavert, að samþykkja breytingar á núverandi læknaskipun, nema að það mál gangi fyrst í gegn um stjórnarráðið og viðkomandi stjórnarvöld. Þingmenn eru yfirleitt ekki svo kunnugir um alt landið, að hver einstakur þeirra geti dæmt um það, hvað er rétt eða hvað verður í heppilegu samræmi, þegar ræða er um slíkar breytingar, nema stjórnin undirbúi málið á undan þingi.