18.02.1909
Sameinað þing: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1085 í B-deild Alþingistíðinda. (2598)

Ferðakostnaðarreikningar

Kristján Jónsson:

Eg skal láta þess getið að það var fyrir mína tilstuðlan, að mál þetta var tekið á dagskrá. Þegar reikningurinn var sýndur mér sem forseta til ávísunar, lagði eg það til að hann yrði lagður fyrir sameinað þing til álita.

Eg lít svo á, að málinu þurfi að flýta svo mikið, að eigi geti komið til mála að láta reikninginn bíða þangað til að búið er að kjósa venjulega ferðakostnaðarreikninganefnd, sem allajafna er eigi kosin fyr en undir þinglok. Hinsvegar mætti kjósa sérstaka nefnd til þess að athuga reikninginn eða þá að vísa málinu til forsetanna til úrlausnar. Að því er málið sjálft snertir, getur mér alls ekki blandast hugur um það, að taka beri kröfur Dr. Valtýs um ferðakostnað og fæðispeninga til greina, fyrir tímann frá því að hann lagði á stað frá Kaupmannahöfn og þangað til að kosning hans var gerð ógild, en reikning hans verður að úrskurða annaðhvort af nefnd eða þinginu í heild sinni, eða þá fela forsetum um að gjöra það.