01.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 405 í B-deild Alþingistíðinda. (2630)

1. mál, fjárlög 1910 og 1911

Björn Sigfússon:

Eg finn nú loks ástæðu til að segja nokkur orð við þessa 3. umr. fjárlaganna. Mér sýnist og heyrist menn líta nokkuð einhliða á þessi fjárlög, virðist að ekki vaki nógu ljóst fyrir mönnum, hvert þessi háttv. deild stefnir í fjármálunum. Vildi biðja menn að athuga, hvort rétt er að vera alt af að koma með nýjar og nýjar fjárbænir inn á þingið. Í stuttu máli, fjárlagafrumv., eins og það er nú, gerir ráð fyrir 350,000 kr. tekjuhalla. Ef breytingartillögur þær, sem liggja fyrir, verða samþyktar, bætast enn við hallann 80 þús. kr. Enn fremur eru útgjöldin í aukafjárlögum nærri 200 þús. kr. Þetta eru þá samtals rúml. 600,000 kr. Eg tel ekki óþarft að benda á þetta, því eg hefi á tilfinningunni, að ekki séu allir, sem hafa gert sér þessa stefnu ljósa. Hitt er víst, að alþýða þessa lands, sem sent hefir okkur á þing, hefir ekki ætlast til slíkrar fjárráðamensku af okkur.

Eg skal ekki fara að rekja það sundur, hvernig einstaklingurinn verður að haga sér ef hann vill vera sjálfstæður maður efnalega; hann verður auðvitað að hafa nákvæmar gætur á því, að útgjöld hans verði ekki meiri en tekjurnar. Alveg hið sama gildir vitanlega um þjóðirnar í heild sinni.

Eg hygg varla sæmilegt, að skila fjárlögunum þannig útlítandi til háttv. efri deildar. Eg ætla lítið að tala um hinar einstöku breyt.till., en vil benda á sem dæmi breyt.till. þm. Dal. (B. J.) um styrk til tamningamannsins, hún er blátt áfram hlægileg.

Eg sé heldur ekki að okkur sé fært að veita styrk til sæmdarmannsins Þorv. Björnssonar, við eigum marga fleiri sæmdarmenn, sem þá auðvitað væri skylt að styrkja, ef þeir þyrftu á að halda. Það er því afarhættulegt, að ganga út á slíka braut, og yrði landssjóði of vaxið, að fullnægja hverjum sem kynni að hafa viðlíka sanngirniskröfu. Eftir því sem skýrt hefir verið frá, hefir starf þessa manns aðallega verið í þjónustu Rangárvallasýslu og Árnessýslu, og þá eru það líka þær sýslur, sem eiga að inna af hendi þessa þakkarskuld.

Eg er heldur ekki alls kostar ánægður með skáldastyrkinn. Við styrkjum of marga, eigum ekki að styðja með landssjóðsfé nema helztu afburðamenn. Það er líka barnaskapur að segja að skáldin hafi ekki gagn af minni styrk, en þeim, er svarar hálfum eða fullum embættismannalaunum. Svo háan styrk höfum við ekki ráð á að veita, og mennirnir hafa gagn af minna. Eg skal taka það fram, að eg hygg að Guðm. skáld Friðjónsson muni gera sér gott af 300 krónum. Hann hefir sjálfur talið það mikilsvert fyrir menn, er líkt stendur á fyrir, að fá upphæð, sem svarar því, er þarf til að halda vetrarmann. Það er þó ekki af því, að eg telji hann ekki hærra styrks verðan — langt í frá; eg lít svo á, að hann ætti einmitt mörgum fremur skilið ríflegan styrk fyrir ágæta skáldhæfileika og dugnað í hvívetna. Sumir hinna eru engu fremri og ættu ekki að fá meira.

Eg greiði atkv. á móti flestum br.till. um styrk og önnur aukin útgjöld úr landssjóði, þó eru einstaka till. svo, að eg mun veita þeim fylgi mitt. Eg vil þá fyrst leyfa mér að minnast á Flensborgarskólann. Sú stofnun er sérstaklega fyrir fátækari alþýðumenn; hún tekur á móti þeim mönnum, sem fjárhagslega er ofvaxið að ganga á aðra dýrari skóla. Ef sá skóli yrði lagður niður lokaðist sú mentaleið fyrir margan, sem ekki hefði efni á að sækja dýrari skóla; en það væri miður heppilegt, að fátækir en þó efnilegir menn væri útilokaðir frá allri almennri mentun. Sama er að segja um Blönduósskólann. Námsstúlkur gefa þar með sér 18 kr. á mánuði og hafa fyrir það fæði, húsnæði, ljós og hita í kólanum. Nú þurfa þær að einhverju leyti að hafa kostnað að auki, segjum 3 kr. á mánuði. Kostnaðurinn verður þá hér um bil 21 kr. mánaðarlega, Hér kostar mánaðarvistin minst 40—15 kr. Eg vona, að háttv. samdeildarmenn viðurkenni, að slíkur skóli sé ódýr, en það er aðalskilyrði fyrir að alþýða alment geti sótt hann. Sá skóli er því eins og Flensborgarskólinn gott athvarf fyrir þann hluta alþýðunnar, sem annars væri varnað allrar mentunar. Þá vil eg leyfa mér að fara nokkrum orðum um ummæli h. 1. þm. Eyf. (H. H.), er hann talaði um framhald Eyjafjarðarbrautarinnar. Mér féll satt að segja illa, hvernig hann leit á það mál. Það var eins og hann héldi, að fjárlaganefndin hefði viljað hefna sín á Eyfirðingum, fyrir það að þm. þeirra væru minnihlutamenn, en það er hreinasti misskilningur (Hannes Hafstein: Framsm. fjárlaganefndarinnar (Sk. Th.) gaf það í skyn áðan í ræðu sinni). (Framsögumaður Skúli Thoroddsen: Nei). Nefndin áleit að þetta mætti spara í bráð. Hún hefir að eins viljað taka það allra nauðsynlegasta upp í fjárlögin, en látið hitt bíða, þótt gott væri og þarflegt. Eyjafjarðarbrautin er nú komin fram að Grund og er til stórmikilla samgöngubóta fyrir héraðíð, en aftur á móti hafa mörg héruð engar vegabætur fengið enn. Það er því sanngjarnt, að Eyjafjarðarhérað bíði eftir framhaldi brautarinnar, þangað til þau héruð, sem enga vegi hafa enn fengið fái þó eitthvað. Það er réttlátt að láta þá bíða, sem búið er að gera meira hjá, en þá sem engar vegabætur hafa fengið.