02.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 522 í B-deild Alþingistíðinda. (2639)

14. mál, meðferð skóga, kjarrs o. fl.

Framsögumaður (Jósef Björnsson):

Eg tók það fram áðan, að breytingartillögurnar eru fram komnar mest vegna ýmsra radda, sem nefndinni hafa borist til eyrna frá deildarmönnum. Breytingartillögurnar eru gerðar aðallega til samkomulags, því að nefndin er einhuga á því, að lögin séu nytsöm, og að því verði að forðast það, sem geti orðið þeim að falli. Annars er það persónulegt álit mitt, að breytingartillögurnar dragi úr því, að tilgangur laganna náist að öllu, þótt eg mæli með þeim til samkomulags. — Það má vel vera, að hrís og víðir teygist sumstaðar inn á tún og engjar, svo að skaði sé að, en það mun þó vera fremur fátítt. — Eg hallast eindregið að þeirri skoðun, að það sé skaðlegt að rífa upp slíkar plöntur, sem hér er um að ræða. Og eg vil jafnvel bæta því við, að það er líka skaðlegt fyrir gróður þeirra, að slá þær eða höggva; það dregur úr vexti þeirra og þroska. En nefndin sá sér þó alls ekki fært að mæla með því, að nokkur takmörkun verði gerð á rétti manna til að slá og höggva slíkar plöntur. Það er yfirleitt álitamál, hverja leiðina skal fara, þá vægari eða þá strangari. Persónulega væri eg ánægðari með, að ákvæðin væru höfð ströng, en um fram alt er áríðandi, að þeim verði hlýtt.