24.02.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1486 í B-deild Alþingistíðinda. (2672)

96. mál, þjóðmenjasafn Íslands

Flutningsmaður (Jón Þorkelsson):

Eg flyt þetta frumv. eftir tilmælum núverandi fornmenjavarðar. Með lögum 16. nóv. 1907 er það ákveðið, að fornmenjavörður skuli jafnframt vera forngripasafnsvörður, og hafa 1800 kr. að launum; en það eru vitanlega ónóg laun fyrir fjölskyldumann að lifa af. Það er óheppilegt, hversu lítil rækt hefir verið lögð við þetta safn af hálfu löggjafarvaldsins. Mér vitanlega eru engin lög til fyrir því, engin fúndazía eða stofnunarskrá, svo að það er eiginlega ekki til, eftir hinni gömlu reglu: »quod non est in actis, non est in mundo«. Og þó er það búið að standa um 50 ár.

Húsrúm það, sem safnið nú hefir, er þannig lagað, að það er með öllu ómögulegt að komast af til gæzlu þess með fornmenjavörð einsamlan; það veitir ekki af, að hann fái 4—6 menn sér til aðstoðar þá daga, sem safnið er opið fyrir almenning, því að ella gæti það alt verið skriðið út að nokkrum árum liðnum. Þar fyrir utan er ákveðið í lögum þeim, er eg áður nefndi, að fornmenjavörður skuli ferðast um landið til þess að skrásetja fornmenjar. — En því ákvæði getur hann als ekki fullnægt, eins og nú er ástatt, með öðru móti en því, að forngripasafnið sé lokað á meðan hann er fjarverandi. Málefni þetta er svo vaxið, að eg álít að réttast sé að setja nefnd í það.