22.04.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 175 í B-deild Alþingistíðinda. (35)

1. mál, fjárlög 1910 og 1911

Ari Jónsson:

Eg vil leyfa mér að bera fram nokkrar breytingartillögur.

1. breyt.till. er við 13. gr. fjárlaganna þar sem veitt er til tveggja póstafgreiðslumanna í Reykjavík 4900 kr. Þessi fjárveiting fer eg fram á að sé hækkuð um 100 kr. Ástæðan er sú, að mér finst algjör ójöfnuður, að gert sé upp á milli þeirra tveggja póstafgreiðslumanna, sem þessi framantalda upphæð gengur til; þótt annar kunni að hafa verið lítið eitt lengur í stöðunni. Báðir þessir menn hafa hið sama að vinna, og munar þar engu. Þess vegna vildi eg fara fram á, að þeim væri og veitt hið sama kaup. En til þess verður að bæta við 100 kr. er leggist til launa þess, er lægra var ætlað. Og er það því tillaga mín, að þessi viðbót verði tekin upp.

Þá er 2. breyt.till. Það er viðvíkjandi veginum frá Hrútafjarðarbotni að Gilsfjarðarbotni. Til þessa vegar hafa verið veittar 2 þús. kr., gegn því að sýslusjóður legði fram hina sömu upphæð.

Hér er gengið út frá, að þetta sé sýsluvegur. En það er rangt, hér er einmitt um þjóðveg að ræða. Breyt.till. fer því fram á, að vegur þessi sé háður sömu skilyrðum og þjóðvegir, en ekki eins og sýsluvegur. Í öðru lagi, að tillagið til hans sé hækkað í 3 þús. kr., 2 þús. er altof lítið fé. Eftir áætlun færra manna er enda ástæða til að ætla að ekki muni af veita 5—10 þús. kr. Þó ætla eg að láta mér í þetta sinn nægja með að fara fram á 3 þús. kr. til vegarins, þareð eigi mun hægt að fá samþykt á hærri upphæð.

Þá er 3. breyt.till. Það er nýr liður: 4000 kr. styrkur til Garðars Gíslasonar til að kaupa mótorvagn. Þessi fjárveiting var nú fyrir skömmu tekin upp í fjáraukalög, En neðri deild hefir felt hana burtu vegna þess, að henni hefir þótt skorta, að nógu skýrt væri fram tekið í lögunum, á hvern hátt upphæðinni yrði varið. Nú er bætt úr því með athugasemdinni við fjárveitinguna, að svo miklu leyti sem hægt er í fjárlögum. Annars vona eg að þingið treysti stjórninni til þess að gera tryggilegan samning við G. G. svo að engin hætta sé búin við þessa fjárveitingu.

Þá er viðaukatillaga (þskj. 563), styrkur til Guðmundar Tómassonar til að veita konum ókeypis læknishjálp í einkasjúkdómum þeirra, og til að veita nemendum á læknaskólanum tilsögn í kvensjúkdómum. Þessi ungi læknir tók próf fyrir rúmu ári með góðum vitnisburði; og er alt, sem að því lýtur, að hann sé hinn efnilegasti maður, og vel að sér í grein sinni. Auk þess, sem hann hefir verið á fæðingarstofnuninni í Kaupmannahöfn, hefir hann ferðast víða í útlöndum til að fræðast sem bezt í öllu því, er að þessari grein læknisfræðinnar lýtur. Meðal annars hefir hann stundað þessa grein á stærstu fæðingarstofnuninni í Bretaveldi, í Dyflinni, og víðar. Þess utan

hefir hann hin beztu meðmæli hér að lútandi frá nafntoguðum læknum ýmsum í útlöndum. Og tekur það af allan efa um að nefndur læknir sé vel að sér í þessari umræddu sjúkdómsgrein (kvensjúkdómum), og vel fallinn til að iðka hana og kenna.

Alkunnugt má það vera, að það verður títt að miklu tjóni, þekkingarskortur manna á læknisfræði, og kemur það eigi sízt fram, þegar ræðir um konur í barnsnauð, eða kvensjúkdóma yfirleitt. Einnig er það altítt, að læknishjálpar sé leitað of seint, þegar slíka sjúkdóma ber að höndum, oft vegna fátæktar hlutaðeiganda. Sú harmasaga er ekki ný, að skortur á þekkingu eða vöntun á læknishjálp vegna fátæktar í þessum sjúkdómum hefir valdið margri konunni líkamsskemda, heilsutjóns eða jafnvel hefir látið líf sitt fyrir þær sakir.

Guðm. Tómasson er nú hinn eini læknir landsins, sem sérþekkingu hefir í þessum efnum. Og tel eg það því skyldu þingsins, að nota þessa þekkingu hans, sem hann nú býður fram í landsins þjónustu, bæði til ókeypis læknishjálpar og til kenslu við læknaskóla landsins.

Þá er viðaukatillaga (þskj. 564) þess efnis, að Jóhanni skáldi Sigurjónssyni veitist 1000 kr. fyrra árið. Umsækjandi hefir í erindi sínu farið fram á, að sér yrði veittar 1000 kr. hvort árið. En vegna þess, hvaða móttökur það hefir fengið í nefndinni, þá hefi eg ekki þorað að fara fram á nema 1000 kr. annað árið. Sem kunnugt er, hefir skáld þetta dvalið langdvölum í Danmörku nú undanfarið árabil. Gaf hann fyrst út leikrit eitt á danskri tungu, sem »Dr. Rung« nefndist. Og varð það þegar ljóst af því riti, að hér var á leiðinni skáld, sem ekki var af almennustu tegund; menn þóttust sjá að hér væri stórskáld að fæðast. Og fór það ekki leynt; allir ritdómarar samdóma um skáldhæfileika höfundarins, þótt sumum findist viðvaningssnið á ýmsu í hinu fyrsta leikriti þessa unga skálds. Þetta rit var forboði annars meira, sem og nú er að nokkru leyti fram komið, þar sem er hið síðara leikrit hans, er hann hefir skrifað á íslenzku, og hann nefnir »Bóndann á Hrauni«. Þar eru ekki að eins svo snildarleg tilþrif, heldur einnig í heild sinni sú meðferð efnisins og svo djúpur skilningur á eðli og anda íslenzks þjóðemis, að fágætt mun af jafn ungu skáldi. Ennfremur skal þess getið, að nú er hann að semja leikrit, íslenzkt að efni og anda. Þetta leikrit ætlar hann að kalla »Fjalla-Eyvind« og verður það, eftir frásögn hans, svo miklu stærra en »Bóndinn á Hrauni«, sem öræfin á landi voru og eru stærri en sveitirnar. Hefir höf. haft leikrit þetta á prjónunum nú um alllangan tíma, og allmjög til þess vandað. Og ræður það að líkum, að svo sem hann hefir vandað mest til þess, allra verka sinna, muni það ekki verða hið lakasta, nema hið gagnstæða væri. Og svo heyrist það hér í þinginu, að þessi maður sé nefndur danskur rithöfundur! Þetta hlýtur að vera sagt af þeim, sem ekkert þekkja þetta unga skáld, eða ritverk hans. Eg hélt þó að þingmönnunum, er sáu »Bóndann á Hrauni« hér í leikhúsinu fyrir nokkru, hefði getað skilist það, að íslenzkur var leikurinn að efni og anda, en eigi útlendur. En þótt svo væri, að þessi íslenzki höfundur ritaði útlenzk leikrit, þareð hann með því eina móti gæti ef til vill frekar aflað sér einhvers fjár til þess að njóta krafta sinna og koma fram hugsjónum sinum, ættum vér Íslendingar af þeirri ástæðu að lítilsvirða hæfileika hans, og hirða eigi um gengi hans? Þvert á móti tel eg það tæplega vansalaust, að sýna ekki neina viðurkenningu fyrir þann skerf, sem þessi ungi rithöfundur leggur fram til þess að breiða Íslands nafn og Íslands sóma út, í augsýn hins mentaða heims.

Stóru leikhúsin í höfuðborgum Norðurlanda, svo sem Dagmarleikhúsið í Kaupmannahöfn og Þjóðleikhúsið í Kristjaniu, meta þennan unga höfund svo mikils, að þau ætla að láta leika leikrit hans. Og jafnvel sjálfur leikhússtjóri Þjóðleikhússins, Vilhelm Krag, sagði við mig í fyrra, að hér væri upp runnin mjög einkennileg og eftirtektaverð stjarna í bókmentaheimi Norðurlanda, þar sem Jóhann væri. Slíkt er álit hans þegar orðið í framandi löndum, þessa unga Íslendings. Og svo skyldum vér, landar hans, ekki vilja sinna honum að neinu. Það væri hneyxli! Hvað lægi þá nær, en að Danir, sem hann elur aldur sinn hjá, reyndu að draga af honum Íslendingsheitið, og teldu hann til sín, líkt og Thorvaldsen og Finsen. En svo fer betur, að vorir miklu menn hjá stórþjóðunum, eru löngum þjóðhollari og tryggari við ætterni sitt og þjóðerni, en þeir sem mest guma hér heima af þjóðrækni sinni. Sjáum vér þar einmitt dæmin af þeim Jóhanni og Einari Jónssyni, sem báðir, hvor um sig, sýna nú í hinni fegurstu mynd, að þeir ekki fyrirverða sig fyrir sitt fátæka og smáa þjóðerni, en kannast við að þeir eru Íslendingar, og sanna, að þeir eru góðir Íslendingar. Það væri því eigi aðeins til þess að forðast vansa, heldur miklu fremur væri það mikill vegur fyrir alþingi, að sýna það með fjárframlögum hér, að það kann að meta gildi góðra og mikilhæfra Íslendinga.