24.04.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 621 í B-deild Alþingistíðinda. (387)

25. mál, skipun læknishéraða o. fl.

Sigurður Stefánsson:

Eg þarf ekki að halda langa ræðu til þess að mæla með frumv. þessu, því að það er kunningi deildarinnar frá fyrri þingum. Eg tók það fram hér í fyrra, að brýn nauðsyn væri á að endurreisa hérað þetta, sem lagt var niður, þegar nýja læknaskipunin var í lög tekin. Það stafaði af megnri vanþekkingu, eða því sem verra var, að héraðið nokkru sinni var lagt niður. Aðalástæða þeirra er það gerðu var sú, að 2 læknar væru á Ísafirði, en vegalengdin inst innan úr Djúpi og út á Ísafjörð verður alveg jafnmikil fyrir því, og það er einmitt vegalengdin, sem í mörgum tilfellum gerir það alveg ómögulegt með öllu að vitja læknis til Ísafjarðar. Eg þekki dæmi þess, að til stór vandræða hefir horft, þennan stutta tíma síðan læknirinn fór þaðan, og jafnvel kostað fleiri mannslíf, hve erfitt er að ná í lækni á þessum stöðum, t. d. var það bara af tilviljun að næm sótt, sem kom upp á bæ einum í héraðinu, ekki barst út um það alt, og hjón mistu 2 börn sín uppkomin fyrir þá sök eina, að ekki náðist í lækna. Fleiri slík dæmi gæti eg tilgreint, en eg hygg þess ekki þörf, einkum þar sem það var sagt hér í deildinni hér á dögunum, að meiri sanngirni mælti með endurreisn Nauteyrarhéraðs en stofnun nokkurs annars nýs héraðs. Og það ætti að minsta kosti að vera öllum skiljanlegt, að kostnaður við að vitja læknis til Ísafjarðar er ofvaxinn flestum Nauteyrarhéraðsmönnum. Hvað þá mótbáru snertir, að enginn læknir muni fást þangað, skal eg geta þess, að það er eins fólksmargt og sum þau héruð, sem farið er fram á að skifta nú — það hefir 1200 íbúa, enda hafði það læknir lengst af meðan það var sérstakt læknishérað, svo að sú mótbára er á engum rökum bygð.