29.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 624 í B-deild Alþingistíðinda. (396)

27. mál, kosningarréttur og kjörgengi

Framsögum. (Jósef Björnsson):

Eg skal fyrst geta þess, að við prentunina er komið fram ósamræmi í háttum nokkurra sagnorða í 1. gr. Svo að samræmi fáist, þarf því að breyta orðunum: hafa, eru o. s. frv. í viðtengingarhátt. — Eins og hin háttv. deild sér á nefndarálitinu, er það einróma álit nefndarinnar, að frumv. þetta beri að samþykkja. Nefndin álítur, að með því sé stigið réttmætt spor í áttina til fullkomins jafnréttis karla og kvenna. Nefndin taldi líka rétt, að vinnuhjú fengju kosningarrétt og kjörgengi í málefnum kaupstaða og sveitarfélaga. En þótt nefndin hafi fallist á frumv. í aðalatriðum, vill hún þó gera á því töluverðar breytingar. Hún álítur að frv. verði töluvert aðgengilegra, ef upp í það eru beinlínis tekin ákvæði laganna frá 22. nóv. 1907 í stað þess að vitna að eins til þeirra. Nefndin leggur því til, að í stað 1. og 2. gr. frumv. komi 2 nýjar greinar og að tvær aðrar nýjar greinar bætist við; í 3. gr. eru talin þau lagaboð, er úr gildi ganga, ef frumv. þetta verður að lögum, en 4. gr. ákveður hve nær lögin skuli ganga í gildi, og er það eina efnisbreytingin, sem nefndin hefir gert. Hún ætlast til að lögin gangi í gildi 1. júlí 1910. Skal eg svo ekki fjölyrða um málið frekar að sinni, en vona að deildin samþykki þær sjálfsögðu og eðlilegu réttarbætur, sem í frumvarpinu felast.