03.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 671 í B-deild Alþingistíðinda. (469)

36. mál, sala á Kjarna

Ari Jónsson:

Það virðist að vísu eigi með öllu ósennileg skýring hjá hæstv. ráðherra, að samkvæmt lögunum um forkaupsrétt leiguliða virðist Hrafnagilshreppur hafa forkaupsrétt að jörðinni Kjarna, þar eð leiguliði er búinn að afsala sér forkaupsréttinum. En mér finst dálítið frekar athugavert við þetta mál, hvort taka beri eingöngu tillit til laganna um forkaupsrétt leiguliða eða þess forkaupsréttar, er þar ræðir um.

Lítum á lögin um sölu þjóðjarða. Þau koma beinlínis við þessu máli. Þau ræða eigi að eins um heimild ráðherra, heldur er og þar ætlast til samkvæmt 2. gr., að þingið ráði og ákveði um málið (söluna), þar sem um sérstakleg almenningsnot þjóðjarða er að ræða. Hér og víðar í lögum er gengið út frá því, að almenningsnot jarða hafi svo stórvægilega þýðingu, að þinginu einu beri að skera úr því, hvort meta skuli meir þessi almenningsnot eða rétt einstaklingsins eða annara aðila. Hér finst mér því um það aðalatriði að ræða fyrir þingið, hvort meiri almennings not séu fyrir Akureyrarkaupstað eða Hrafnagilshrepp, að eignast jörðina Kjarna. Eg er ókunnugur nyrðra og get því ekki eins vel dæmt um þetta atriði og þingmenn Eyfirðinga. En sé svo, að jörðin verði í margfalt meira gildi fyrir Akureyrarkaupstað en Hrafnagilshrepp, þá ber þinginu að taka til greina svo stórvægilegt atriði.