31.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 696 í B-deild Alþingistíðinda. (495)

36. mál, sala á Kjarna

Ari Jónsson:

Viðvíkjandi nauðsyninni fyrir Akureyri að fá þessa jörð keypta, hefi eg ekki mikið að segja, þar eð eg er því máli ókunnugur og verð að styðjast við sögusögn annara í því. En ef eg á að dæma eftir því, sem eg hefi heyrt um það, þá álít eg að mikil ástæða sé fyrir þingið til að verða við ósk Akureyrar. Það er enginn vafi á því, að jörðin getur orðið miklu fyr og betur ræktuð upp í eign Akureyrar en Hrafnagilshrepps. En um það skal eg ekki þrátta; því eru aðrir betur kunnugir.

Hitt atriðið, hvort rétti nokkurs sé hallað með því, að selja kaupstaðnum jörðina, hafa þeir háttv. 4. og 5. kgk. þm. drepið á. Háttv. 4. kgk. þm. þarf eg ekki að svara, þar eð ræða hans var að eins brjóstmylking úr háttv. 5. kgk. þm. En ræðu háttv. síðarnefnda þm. vil eg athuga dálítið. Það er undarlegt, að lagaskólastjóri Íslands skuli vera jafn óathugull um þetta mál, eins og hann virðist vera, þar sem hann heldur því fast fram, að lögin um forkaupsrétt leiguliða gildi án tillits til annara laga. Fyrsta setningin í 1. gr. þessara laga hljóðar svo: »Þegar jarðeign, sem er í bygging, gengur kaupum og sölum, skal hún fyrst boðin til kaups leiguliða«. Meira stendur ekki hér. Það gæti litið svo út, sem lögin næðu til allra jarða, sem eru í bygging, þó það standi alls ekki berum orðum, og því verða menn að leita fyrir sér, hvort ekki séu til nein önnur lög, sem takmarki gildi þessara laga, og þá verða fyrir manni lögin um sölu þjóðjarða, sem sýna það ótvírætt, að þjóðjarðir eru undanteknar. Eg get hugsað, að þar sem eg er ungur lögfræðingur, svo að segja nýkominn frá prófborðinu, geti ekki verið eins mikið tillit til mín tekið eins og lagaskólastjórans, og þess vegna skal eg geta þess, að eftir að við vorum búnir að búa til nefndarálitið, hefi eg lagt þessa skýringu mína undir dóm 5 embættismanna landsins, sem verða að taka tillit til þessara laga í embættisrekstri sínum, og þeir voru allir á þeirri skoðun, að lögin um forkaupsrétt leiguliða gildi ekki um þjóðjarðir. Flestir hafa þeir að minsta kosti eins gott próf eins og háttv. lagaskólastjórinn.

Eg vona því, að deildin taki tillit til þessarar skýringar. Það er enginn vafi á því, að hreppurinn hefir engan forkaupsrétt að jörðinni, og því ber eingöngu að taka tillit til þess, hvort meiri almenningsnot fyrir landið verði að jörðinni með því að hún tilheyri Akureyri eða Hrafnagilshreppi.