17.04.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 747 í B-deild Alþingistíðinda. (576)

44. mál, skipun læknishéraða

Ari Jónsson:

Nefndin leggur til, að í stað frv. á þgskj. 177, komi nýtt frv. á þgskj. 461. En í raun og veru er það sama málið, — héraðinu að eins skift á annan hátt. Sú skifting er heppilegri vegna heiðar einnar í Strandasýslu, Trékyllisheiðar, sem oft er ill yfirferðar, og því bezt að sem sjaldnast þyrfti til þess að koma, að vitja læknis yfir hana. Ástæður þær, er hinn háttv. 4. kgk. þm. færði gegn máli þessu, voru mjög lélegar, og stafar mótspyrna hans gegn frv. þessu sjálfsagt mest af ókunnugleika. Háttv. 4. kgk. þm. taldi fjölgun lækna hættulega, því að vel gæti svo farið, ef þingið væri fúst á að sinna slíkum beiðnum, að á endanum vildi hver hreppur hafa lækni, en landsjóður hefði ekki ráð á að launa allan þann sæg. Mín skoðun er sú, að engar kröfur, er kjósendur gera til þingsins, séu sanngjarnari en þær, er fara fram á fjölgun lækna Strandalæknishérað er 2 til 3 dagleiðir á lengd, og því engin hætta á, að hver hreppur fengi ástæðu til þess að heimta lækni, þótt því yrði skift í tvent. Þá mótbáru verð eg því að telja gersamlega þýðingarlausa. Enn fremur sagði háttv. 4. kgk. þm., að læknaskipunin hefði nýlega verið endurskoðuð, og því ástæðulaust að fara nú þegar að gera breytingar á henni. Það er nú um þá endurskoðun að segja, að það lítur út fyrir að þeir menn, er að henni unnu, hafi verið gersamlega ókunnugir því, hvernig læknaskipuninni bæri að haga í sumum landshlutum; eg skal til dæmis nefna svæðið á milli Eskifjarðar og Seyðisfjarðar, svo og Vestfirði, þar sem lagt var niður Nauteyrarlæknishérað. Það er tvent, sem koma á til greina, er um stofnun nýrra læknishéraða er að ræða, vegalengd og mannfjöldi. Eg skal ekki orðlengja frekar um vegalengdina; það er á allra manna vitorði, að hvergi er á landinu jafnlangt til læknis, sem frá sumum hlutum Strandalæknishéraðs. En um fólksfjöldann í Strandasýslu skal eg geta þess, að hann hefir aukist síðari árin. Hefir þar norður frá myndast heilt þorp, Gjögur, er hefir á vertíðinni nálægt hundrað íbúa, og allar líkur eru til, að innflutningur verði talsverður, sakir síldarútvegs, sem er góð von um á Reykjarfirði. Halda margir, að Reykjarfjörður muni með tímanum ekkert gefa Siglufirði eftir í því efni, og muni útlendingar streyma þangað. — Eg held að það sé engin ástæða til þess, að synja þessari sanngjörnu beiðni Strandamanna, og vona því að hin háttv. deild samþykki frv. þetta.