30.04.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 786 í B-deild Alþingistíðinda. (634)

50. mál, kirknafé

Stefán Stefánsson (6.kgk.þm.):

Við 1. umræðu málsins gat eg þess, að við 2. umræðu mundi eg koma með breytingartillögu; hún er á þgskj. 700, og vænti eg þess, að deildin samþykki hana. Með breytingartillögunni er loku fyrir það skotið, að undanþágan haldist lengur en til er tekið. Breytingin er gerð í samráði við biskup; og er hann málinu meðmæltur. — Mótmælum þeim, sem komu fram við 1. umr., mótmælti eg þá og sýndi fram á, að þau væru á engum rökum bygð. Það var talað um hættulegt fordæmi; en um slíkt getur ekki verið að ræða hér þar sem þær ástæður, sem hér eru fyrir hendi, eru einstakar og hrein undantekning.