03.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 838 í B-deild Alþingistíðinda. (701)

55. mál, dánarskýrslur

Júlíus Havsteen:

Frumv. það sem hér liggur fyrir, getur aldrei komið að tilætluðum notum. Reglurnar um skýrslurnar eru mismunandi í 1. og 2. gr., eftir því hvort læknirinn situr í kirkjusókninni eða ekki, en reglumar í 1. gr. koma að eins að notum. Samkvæm. 2. gr. eiga í þeim sóknum þar sem enginn læknir býr, prestarnir að gefa vottorð um dauðamein manna; það geta auðvitað aldrei orðið verulega ábyggilegar skýrslur, sem þeir gefa.

Það er ómögulegt, eins og nú til hagar, að búa til lög, sem gefa úttæmandi reglur um dánarskýrslur sem ná til allra. Þess vegna álít eg að bezt væri að bíða með slík lög, þangað til það væri hægt að hafa þau nýtileg, en það verður að eins með fjölgun lækna, nema menn vilji setja lög um líkskoðunarmenn.

Verði þetta frumv. að lögum, verða því samfara mörg og margvísleg óþægindi bæði fyrir presta og aðstandendur hins látna. Í þeim sóknum, er læknir býr í, mega prestar ekki jarðsetja lík neins manns, fyr en þeir hafa fengið dánarvottorð hans frá lækninum, er stundaði hann; náist ekki í þann lækni, eða hafi enginn læknir séð þann látna í banalegunni, á að sækja héraðslækni eða annan lækni til að skoða líkið og semja dánarvottorð. Það gefur að skilja að með þessu móti gæti oft komið fyrir að lík yrðu að standa uppi langan tíma, meðan verið er að leita uppi lækni.

Talsverður kostnaður mundi fylgja framkvæmd á þessum lögum, þar sem læknar eiga að fá dagpeninga og ferðakostnað. Þessir dagpeningar og ferðakostnaður eiga að borgast eftir reikningi er sendist stjórnarráðinu. Við þetta er mikið umstang og skriftir og þar af leiðandi tímatöf. Út af þessum reikningum getur orðið mesta rekistefna; það vita þeir sem þekkja til.

Það væri miklu betra að láta sér nægja fyrst um sinn dánarskýrslur, er prestarnir gæfu, eins og hv. þm. V.-Sk. benti á. Þær yrðu að vísu alt af ófullkomnar, en þær yrðu lausar við kostnað og verulegt umstang, og gætu ef til vill orðið að nokkru liði.