23.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 939 í B-deild Alþingistíðinda. (813)

68. mál, æðsta umboðsstjórn Íslands

Lárus H. Bjarnason:

Háttv. deild áleit ekki ástæðu til að setja nefnd í málið, þegar það var hér síðast til umræðu. Og eg býst við að henni hafi ekki snúist hugur síðan, því að ekkert mælir með nefnd fremur nú en þá. — Forseti hefir þegar úrskurðað að frumv komi ekki í bága við stjórnarskrána. Hann úrskurðaði það við 1. umr. málsins með því að taka málið á dagskrá, og það er engin þörf á nýjum úrskurði um það atriði.

Háttv. deildarmenn hafa hugsað um málið síðan er það var til 1. umr., og því minni ástæða er til að setja það í nefnd nú. Það er nóg af stórmálum á þinginu og nóg af nefndarstörfum, þó að ekki sé verið að setja mál í nefndir að óþörfu. Nú er mjög orðið liðið á þingtímann og mörg mál koma úr nefndum bráðlega, svo að það verður nóg að gera, og því bezt að afgera þetta mál sem fyrst.

Eg vil ekki gera háttv. þm. Ísaf. neinar getsakir um tilgang hans með því, að fara nú að stinga upp á nefnd í þessu máli. En það hefir komið fyrir, að mál hafa sofnað í nefndum; og einhverjum kynni að detta í hug að tilgangurinn væri sá, að losna við að greiða atkvæði um málið. Þetta á ekki að vera nein aðdróttun frá minni hálfu, en svona mætti leggja það út.