26.04.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 253 í B-deild Alþingistíðinda. (84)

2. mál, fjáraukalög 1908 og 1909

Agúst Flygenring:

Eg vil leyfa mér að þakka háttv. þm. Strandamanna fyrir þær upplýsingar, sem hann hefir komið með — eg mun hafa vilst á honum og þm. Dalamanna áðan —, en er honum ekki alveg samdóma um, að þó þessi höfn væri mæld, þá mundu að sjálfsögðu skip koma þangað inn. En þó leiðin yrði mæld og nákvæmt kort búið til yfir þann hluta Breiðafjarðar, sem ómældur er, þá vil eg benda hinum háttv. þm. á, að þess konar kort er í raun og veru ekki notað; maður þarf jafnt hafnsögumanns með eftir sem áður. Enginn ókunnugur fer þessa leið eftir korti, hvað gott sem er. Þess konar leiðir eru farnar eftir vissum leiðarmerkjum á landi og þau eru auðvitað til og kunnugir menn þar vestra þekkja þau. Kort yfir leiðina hafa því litla eða enga þýðingu. Annars mun þessi fjörður mjög svo lítið notaður til samgangna, og verzlunarstaðir þar vestra í hnignun. Þó leiðin væri kortlögð, mundi hún ekki þykja fýsileg fyrir skip; en, sem sagt, eg hygg hægt að finna leiðina með litlum kostnaði, eins og eg hefi bent á: eftir tilvísun kunnugustu manna setja merki á landi, þar sem þau vantar, eða gera þau greinilegri þar sem með þarf, og skrifa skýra lýsingu yfir þann hluta fjarðarmynnisins, sem er skipgengur. Fjörðinn að öðru leyti, sem er þur með hverri fjöru, þarf ekki að mæla.

Þingm. Strandamanna sagði, að ráðunautar í verzlunarmálum væri »brennandi spursmál«. Ekki hefi eg þó orðið þess var, að svo væri. Þó það hafi komið fram á 5—6 fundum, þá getur það tæplega talist alment áhugamál þjóðarinnar fyrir það; þó á það hafi verið minst, þá er víst um, að það er alls ekki almenn ósk landsmanna. Enda er hins vegar auðséð, að hann (þm. Strandamanna) hefir, að eg vona, gjörmisskilið meiningu eða tilgang stjórnarinnar með þetta mál. Hann talar um, að bændaverzlanir þurfi að hafa umboðsmenn, sem séu launaðir af landsfé! Slíkt er fásinna ein; enda eiga ekki bændaverzlanir, svo merkilegar sem þær eru, skilið háan fjárstyrk af opinberu fé; slíkt vona eg að geti ekki komið til mála á neinn hátt. Stjórnarinnar meining var sýnilega sú, að skipaðir væru menn, sem væru ráðunautar verzlunarstéttarinnar í heild sinni, en alls ekki umboðsmenn einstakra verzlana. Eins og eg sagði: að fara að skipa landslaunaða umboðsmenn bændaverzlana findist mér fásinna, sem stjórninni víst hefir heldur ekki komið til hugar. En spurning væri þó með almenna ráðunauta í landsins þjónustu í heild sinni.