26.04.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 257 í B-deild Alþingistíðinda. (86)

2. mál, fjáraukalög 1908 og 1909

Jens Pálsson:

Út af fram kominni breyt till. um vegarlagninguna suður með sjó, finn eg ástæðu til, eins og á stendur, að minnast á vegagerð þessa um Gullbringusýslu, og álít eg rétt, í þessu sambandi, að segja í fám orðum sögu þessa máls.

Fyrir hér um bil 30 árum mátti heita ein vegleysa úr Reykjavík og alt suður á bóginn. Þá gekst heiðursmaður í Hafnarfirði (Chr. Zimsen) fyrir lagning upphleypts vegar yfir Hafnarfjarðarhraun. Var það verk unnið fyrir fjárframlög frá einstökum mönnum. Nokkuð löngu síðar beittist þáverandi þingm. Gullbr.- og Kjósarsýslu fyrir því, að styrkur yrði úr landsjóði veittur á þingi, gegn öðru eins úr sýslusjóði, til að leggja færan veg úr Hafnarfirði yfir ófærurnar alræmdu suður með sjó að Vogastapa. Það var þáverandi þingm. Þ. J. Thoroddsen, sem hugmyndina átti og kom málinu á framfæri. Bar hann fram á þingi tillögu um, að leggja upphleyptan veg yfir allar ófærurnar alt að Vogastapa. Síðastliðin 5 ár hefir að þessu verið unnið, og er vegurinn kominn suður að Vatnsleysu. Á síðasta þingi var því svo heitið, að framlengja þennan veg alt til Keflavíkur, og skyldi Keflavík vera endastöð vegarins, því þaðan skiftast aftur vegir í ýmsar áttir, Grindavík, Hafnir o. s. frv. En nú síðast er það merkilega tilbrigði komið fram, að til orða hefir komið, að hafa endaskifti á veginum, og hætta við að halda honum áfram suður á bóginn, en byrja aftur í þess stað að leggja hann út frá Keflavík, sunnan frá. Nú stendur svo á, að frá Vatnsleysu að Vogastapa er einkum aðalófæran á veginum; en Vogastapi er, eins og kunnugt er, ás ekki allhár, sem gengur fram í sjó, og verður yfir hann að fara, en þar er vegur allsæmilegur yfirferðar, ef ruddur væri vel. Þá taka við hinar svokölluðu Njarðvíkurfitjar, sem er sléttlendi með sjó fram og bærilegur vegur; er það ekki mjög langur spölur, unz við tekur hinn upphleypti vegur til Keflavíkur. Um þetta svæði alt saman í heild sinni er ekki slæmur reiðvegur. — Nú er hinn fyrst áminsti vegur kominn alt suður að Vatnsleysu, en þá er eftir hraunlengja, hér um bil 3 mílur vegar, þá stapinn 1 míla full, og svo loks hálf míla þaðan og í Keflavík. — Eftir þessu yfirliti mínu er það sýnilegt, að upphaflega var svo til ætlast, að vegur þessi héldi áfram í sömu átt, unz hann hefði náð takmarki sínu, Keflavík. En þar sem nú er snúið við blaðinu og farið fram á, að leggja veginn sunnan frá, út frá Keflavik, í stað þess að halda honum áfram í sömu stefnu norðan frá, þá er það fyrst og fremst breyting á hinni upphaflegu tilætlun, og hún þess utan mjög ósanngjarnt gjörræði. Eg læt mig þetta mál skifta, þar sem eg er þingmaður sýslunnar, að þessi framkvæmd komi að sem beztum notum í almennum skilningi, án tillits til hagsmuna einstakra sveita eða sýsluhluta. Nú fyrir skömmu er að vísu komin fram samþykt frá suðurhreppunum um, að vegurinn skuli lagður frá, Keflavík að sunnan. Háttv. þm. Vestur-Ísfirðinga fór sem sé heim til sín núna í Dymbilvikunni og sat sýslufund suður í Keflavík, og þá slysaðist þessi samþykt í gegn. En eins og eg tók fram, álít eg ósanngjarnt mjög í alla staði, að hætta nú við þennan veg í miðju kafi, eins og komið er, og fara að byrja á honum annarstaðar. Vatnsleysuströndin er sem sé sá hlutinn af því sem eftir er, sem lang-ófærastur er. Og væri nú aftur á móti haldið áfram með veginn þar sem komið er, í stað þess að snúa frá, þá mætti áreiðanlega koma veginum í sumar fyrir fé það, sem til hans er ætlað, að minsta kosti suður að Kálfatjöm, þ. e. suður í miðjan Vatnsleysustrandarhrepp. Fyr en svo langt er komið, finst mér ófært að látið sé eftir þessari áskorun Keflvíkinga, að fara að leggja veginn sunnan þaðan, því bæði væri það, sem eg sagði, alveg rangt gagnvart öðrum hreppum; enda er sýnilegt, að þar sem veginum er komið nú, yrði hann ekki að hálfu gagni, ef nú væri frá honum snúið og skilið við hann þar sem verst gegnir. Fái Vatnsleysustrandarmenn aftur á móti áframhald af veginum, svo að nemi við miðjan hrepp, þá er eigi ókleift fyrir þá, að hafa hans not á þann hátt, að flytja á kerrum svo langt sem vegurinn nær, og svo heim til sín á hestum, þar sem hann þrýtur. En þar sem komið er nú, er slíkt ekki tiltök. Annars get eg ekki skilið, hvers vegna þessi samþykt hefir verið gerð, — nema ef vera skyldi, að Keflavík væri að hugsa sér að »konkúrrera« við Hafnarfjörð um verzlun á Vatnsleysuströnd. En alment gagn getur alls ekki orðið að þessu. Það má heita svo, að þessi breyting kæmi ekki neinum að haldi nema Keflvíkingum einum, og það þó alls ekki svo, að nemi við neina brýna þörf. öðru nær!

Þessi endaskifti á vegagjörðinni, sem nú er farið fram á með breytingartillögu við fjáraukalögin, eru fjarstæða, enda gagnstæð þeirri meginreglu, sem fylgt hefir verið hér á landi, þeirri, að leggja veg út frá einhverjum stað stöðugt áfram, unz endastöð vegarins er náð.

Ég vona, að hin háttv. deild verði tillögunni andvíg, enda býst eg við að henni þyki sem mér harla óviðkunnanlegt, að breyta gildandi fjárlögum með viðauka á fjáraukalögum. Auk þess er tillagan óljós og ekki að eins óheppilega heldur og rangt orðuð, því að þar ætti að standa »frá Keflavík til Hafnarfjarðar«, en ekki »frá Hafnarfirði til Keflavíkur«; það væri sjálfu sér samkvæmt, og sýndi að átt væri við — endaskifti.