15.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1029 í B-deild Alþingistíðinda. (938)

82. mál, póstafgreiðsla í Vík

Steingrímur Jónsson:

Háttv. þm. V.-Sk. gat ekki séð að hér væri um »princip«-spursmál að ræða. En eg skal vekja athygli hans á því, að ef það verður tekið upp að flytja svona tillögur inn á alþingi, þá tökum við upp nýja reglu.

Háttv. þm. hélt að það væri engin hætta á að þessi aðferð yrði algeng eða að margar slíkar málaleitanir kæmust inn á þing. Hvað veit sá góði maður eiginlega um það. Eg get frætt hann um það, að eg þekki til nær 20 hreppa, sem mundu geta snúið sér til þingsins strax og þetta væri gengið í gegn, með samskonar málaleitanir.

Og eg skal ennfremur benda mönnum á, að ef þessi regla kemst á um póstmál, hversvegna skyldi hún þá ekki verða tekin upp á öðrum svæðum?

En þyki mönnum annars sem hægt sé að saka stjórnina um nokkuð í þessu atriði, því er þá ekki heldur komið með slíkt á eldhúsdaginn í fjárlögunum heldur en að fara svo að; því að þetta er ekki annað en títuprjónar. Það getur í öllu falli ekki haft önnur áhrif en að spilla sambúðinni milli þings og stjórnar.

Háttv. þm. V.-Sk. þótti það líka hart, að eg hefði kvartað yfir að skjölin í málinu lægi ekki fyrir þinginu. En það ætti þó auðvitað svo að vera, þó um smámál sé að ræða. Það má ekki skilja þetta svo, sem eg væni þm. að nokkru leyti um að hann segi ekki satt frá, en skjölin hefðu samt átt að berast þinginu, því að þótt þetta megi heita smámál hér, þá er það samt stórmál austur í Vík.

Eg álít að það sé hættulegt að koma póstmálum vorum inn á þessa leið; því að vér höfum fé af svo skornum skamti, að þingið getur ekki gert nema það sem brýnasta nauðsyn krefur. Það er að vísu satt, að pósttekjurnar hafa aukist að miklum mun. En gjöldin hafa líka aukist eins mikið eða meira. Og eg held að ef einstakir liðir væru rannsakaðir í pósttekjunum, þá mundi það koma í ljós, að tekjurnar hafa aukist mest við frímerkjasölu. En þetta er óáreiðanlegur tekjuliður, og ætti að athuga það nánar í fjárlögunum.