08.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 408 í B-deild Alþingistíðinda. (1009)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Jón Ólafsson:

Hr. forseti! Eg skal reyna að lengja ekki umræðurnar mikið, en verð þó að svara nokkrum orðum ýmsra háttv. þm., sem fallið hafa hér í þingsalnum. Það er þá fyrst viðvíkjandi ræðu hæstv. ráðherra (Kr.J.) um húsaleigustyrk til eins af nemendum lagaskólans, sem er sonur eins hins efnaðasta manns hér í bænum og jafnvel í landinu; hæstv. ráðherra vildi ekki kalla það húsaleigustyrk, heldur præmiu. Mér þykir leitt, að eg hefi hvergi í fjárlögunum getað fundið heimild fyrir því að veita nemanda præmiu af því fé, sem landssjóður leggur skólanum. Ef eitthvað stæði um þesskonar verðlaun í reglugerð skólans, þá hlyti það að vera í samræmi við einhverja ákvörðun í fjárlögunum, en sú ákvörðun finst hvergi. Þessi verðlaunaveiting hefir því verið ólögleg eða hæstv. ráðherra (Kr. J.) hafa verið gefnar skakkar upplýsingar. Það er líka rangt, að þetta hafi að eins komið fyrir einu sinni. Það hefir komið fyrir tvisvar eða þrisvar.

Út af orðum háttv. 1. þm. G.-K. (B. Kr.) viðvíkjandi fjárveitingu til Thorefélagsins skal eg geta þess, að slík fjárveiting hefir ekki verið bundin við nafn áður á fjárlögunum. Það er því ekkert nýmæli hjá okkur, sem viljum taka nafnið burtu, svo að fjárveitingin sé eigi bundin við nafn.

Þá skal eg minnast á breyt.till. um launahækkun geðveikralæknisins Þórðar Sveinssonar á Kleppi. Þessi till. hefir verið réttlætt með því, að hann hafi í fleiru en lækningunum að snúast, þar sem hann sé líka ráðsmaður hælisins og þurfi því oft að fara hingað til Rvíkur til þess að gera innkaup. Þótt nú svo sé, þá hygg eg, að hann þurfi ekki altaf að vera hér, eins og raun er á, en ætti að hafa tíma til að líta dálítið oftar til sjúklinganna en hann gerir. Það væri ekki tiltökumál, þótt hann kæmi hingað við og við til þess að gera stór innkaup, en hann þarf ekki að vera hér altaf dag eftir dag frá morgni til kvölds, til þess að kaupa 1 pd. kaffi einn daginn og 1 pd. sykur hinn næsta o. s. frv. Þeir, sem á hælið koma og séð hafa sjúklingana í basti og böndum, geta bezt borið um, hvernig meðferðin á þeim er. Hún er svo fram úr hófi ofboðsleg, að manni hryllir við að hugsa til þess. Það eru mörg dæmi til þess, að læknirinn hefir aldrei séð sjúklinginn, nema sama daginn, sem hann hefir verið lagður inn. Einn sjúklingurinn dó fyrir ekki all-löngu þar bundinn á vanhúsinu — það hafði gleymst að vitja um hann alla nóttina og um morguninn fanst hann dáinn. Kalla menn þetta gott eftirlit og á að fara að verðlauna það og veita manninum launahækkun fyrir? Háttv. þm. N.-Þing. (B. Sv.) sagði, að víðasthvar annarsstaðar væri samskonar staða hátt launuð, því að mikil ábyrgð fylgdi henni. Það er mikið rétt, en þeir, sem há laun hafa, verða að vera reyndir og samvizkusamir menn. Erlendis eru ekki óreyndir strákar settir í slíka stöðu. En þessi maður var tekinn og gerður læknir við hælið þegar hann var ungur og óreyndur unglingur, nýsloppinn út af læknaskólanum. Svona hefir hann reynst og hér á að fara að bæta kjör hans að óverðskulduðu og óþörfu. Ef það verður ofan á hjá háttv. meirihluta, verð eg að líta svo á, að ekki sé verið að launa manninn fyrir annað en pólitíska starfsemi, sem hann hefir haft fyrir landvarnarliðið hér í Reykjavík.

Þá verð eg að svara háttv. 2. þm. Húnv. (B. S.) nokkrum orðum. Eg skal þó ekki taka mjög hart á honum, því að hann er dauður. En alt hans hjal út af orðum mínum var úti á þekju hjalað. Hann sagði, að eg hefði talað óvirðulegum orðum um kennara Blönduósskólans, hefði svert og svívirt merkiskonur. Eg nefndi enga konu á nafn. Frú Elín Briem er góðvinur minn og eg veit, að hún telur mig góðan vin. Eg mundi manna sízt fara um hana óvirðingarorðum, og hún mundi heldur ekki trúa því, þótt henni væri sagt það. Hitt sagði eg, að lítill árangur hefði verið hjá sumum námsmeyjum af kenslunni á þeim skóla, hann hefði ekki verið annað en góður barnaskóli. Og það sjá allir, sem vilja sjá það, að kennurum skólans er ekki gefandi sök á því, heldur er það skipulagi og fyrirkomulagi skólans að kenna. Háttv. þm. kom með nokkuð skrítið dæmi fyrir ágæti þess skóla, að ein kona, frú Björg Þorláksdóttir Blöndal, hefði gengið í þennan skóla og síðan eftir 3 ár lokið stúdentsprófi í Kaupmannahöfn. Gáfuð kona, eins og hún er, mundi hafa getað gert það þótt hún hefði aldrei í þennan eða jafnvel neinn annan skóla komið. Eg get líka sagt háttv. þm. það, að piltur einn, sem aðeins hafði áður gengið í barnaskólann á Seltjarnarnesi tók stúdentspróf í Höfn eftir 2½ ár. Háttv. þm. vill nú víst ekki halda því fram, að allir þeir, sem gengið hafa á Seltjarnarnesskólann, geti lokið stúdentsprófi eftir þann tíma. Hann hlýtur því að sjá, að dæmi hans sannar ekki vitund um ágæti skólans, heldur að eins um ágæti nemandans. Eg sagði það til námsmeyjanna, að margar af þeim bæri það eitt úr býtum, að þær gætu lesið danska eldhúsrómana. Eg verð að vísa á bug þeirri ásökun, að eg hafi farið nokkrum óvirðingarorðum um kennarana við skólann. Eg efast ekki um, að þeir gætu kent mikið meira, en það er eftir fyrirkomulagi skólans alls ekki af þeim heimtað.

Háttv. þm. N.-Þing. (B. Sv.) vildi skera öll skáld niður við eitt trog. Eg skil ekki í, að hann hljóti miklar þakkir hjá hávaða Íslendinga fyrir það. Hann vildi gera mun á ljóðskáldum og söguskáldum, en vildi þó skera öll niður. Um ljóðskáldin má raunar segja, að þau þurfi ekki eins mikinn tíma til ljóðagerðar og geti því sint öðrum störfum, en það er auðsætt hverjum manni, að þau skáld, sem skrifa kannske 2 stórar bækur á ári geti ekki sint mörgum öðrum störfum.

Sami háttv. þm. vildi hækka styrkinn til Sighvats gamla Borgfirðings. Eg ætla ekki að fara að hafa mikið á móti því, en vil að eins drepa á ástæður þær, sem hann færði fyrir þessari hækkun. Hann sagði, að þetta væri merkisrithöfundur. En hvað liggur eftir hann? Ekkert annað en stuldur á annara verkum. Hann hefir þózt finna gamalt handrit, sem hann hefir birt, en í raun og veru var það samansett af Gísla Konráðssyni, sem Sighvatur var mjög handgenginn, og þegar hann var dauður stakk Sighvatur því út sem sínu og eignar sér svo heiðurinn. Það er »Natanssaga«, sem eg á við. Líkt er því varið með fleiri hans ritverk — það eru alt annara verk — og þótt hann sitji og grúski hér á söfnunum og afskrifi eitthvað, sé eg ekki, að bókmentirnar aukist mikið við það. Það getur verið, að hann snapi eitthvað lítils háttar og komi því í heild. Annars skal eg ekki vera meinsmaður þess, að karlinn fái að koma hingað suður og grúska í söfnunum, en eg kann illa við, að það sé verið að vegsama hann fyrir ritverk, sem aðrir eiga heiðurinn af, að svo miklu leyti sem um nokkurn heiður væri að tala.

Þá vildi sami háttv. þm. færa niður ferðakostnaðarpeninga ráðunauts fræðslumála. Eg verð að leggja á móti þessari tillögu hans. Þessi maður er hér í Rvík nokkurn hluta ársins og situr við vinnu sína, en er ekki að stöðugu rápi eins og Þórður á Kleppi. Hann er launaður sem ráðunautur stjórnarinnar. Nokkurn hluta ársins ferðast hann um, og það sýnist því ranglátt að svifta hann einan allra ráðunauta ferðastyrk. Eg skal svo ekki tefja umræður lengur í þetta skifti.