04.05.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 498 í B-deild Alþingistíðinda. (1037)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Skúli Thoroddsen:

Eg vildi leyfa mér að gera nokkrar athugasemdir, og þá fyrst og fremst um fjárveitinguna til þess að leggja tvöfaldan þráð milli Borðeyrar og Ísafjarðar. Það er gert ráð fyrir, að þetta kosti nú aðeins 55 þús. kr. Hefir landsímastjóri skrifað stjórnarráðinu, að í stað þess að koparþráður hefir áður kostað kr. 1,50 kílogr., þá sé nú komið tilboð um að fá hann keyptan fyrir kr. 1,10 kílogr., og þar sem spottinn er nú 196 kílometrar, þá verður sparnaðurinn, ef þetta tækifæri er notað, 60 kr. á kílom , eða alls 11,760 kr. Þetta er mikill sparnaður, og það er mjög áríðandi, að fá þarna tvöfaldan þráð, sem allra fyrst, til þess að full not verði að línunni. Sérstaklega er svo ástatt með Vestur-Ísafjarðarsýslu og Barðastrandarsýslu, að símtöl þaðan eru lítt möguleg meðan hann fæst ekki. Vona eg því að háttv. deild fallist á tillögu nefndarinnar að þessu leyti.

Út af ræðu háttv. þm. S.-Þing. (P. J.) skal eg benda á það, að það var töluvert villandi, sem hann sagði um viðskilnað neðri deildar við fjárl. eftir 3. umr., og það, hvernig Sjálfstæðismenn hefðu dregið sinn taum þar, og afsakaði hann Ed. með því, þótt hún hefði fundið ástæðu til að kippa ýmsu í liðinn. Svo að eg nú aðeins bendi á eina gr., þá vildi eg snöggvast líta á fjárveitingar til samgöngumála. Það sem er veitt til kjördæma mótstöðumanna vorra til flutningabrauta, er til Borgarfjarðarbrautar 10. þús. kr., til Reykdælabrautar 20 þús. kr., Rangárbrúin 45 þús. kr., Eyfirðingabraut 25 þús. kr., Grímsnesbraut er ekki gott að vita, hvar á að telja, en segjum að hún sé talin hálf til Sjálfstæðismanna og hálf til Heimastjórnarmanna, þá eru það 10 þús. kr. Þetta verða samtals 95 þús kr. Þá kemur til kjördæma Sjálfstæðisflokksins: Húnvetningabraut 20 þús. kr., Skagfirðingabraut 20 þús. kr. og Grímsnesbrautin hálf 10 þús. kr., samtals 50 þús. kr. Svona er nú ef litið er á flutningabrautirnar, að Sjálfstæðismenn, sem ráða yfir ? hlutum af kjördæmum landsins, hafa ekki skamtað sér meira en þetta. En hvað segir nú Ed. hér um? Menn skyldu nú hafa vænst þess, að þegar hún sá, hve vel meirihl. lét sér farast, þá kynni hún að meta það, en það er öðru nær, en svo hafi reynst. Hún hefir leyft sér að kippa burtu 10 þús. kr. frá Skagafjarðarbraut, ennfremur ræðst hún á brú á Haffjarðará og tekur þar 2 þús. kr. Ekki getur hún unnað Dalamönnum þess styrks, sem þeir áttu að fá, heldur verður hún að lækka hann um 1.300 kr. Hvammstangaveginn hefir hún eigi heldur getað látið í friði, og veginn milli Hafnarfj. og Keflavíkur hefir hún fært niður í 5 þús. kr. Þarna er nú komin röð af fjárveitingum, sem háttv. Ed. hefir ekki fundið ástæðu til að muna eftir, en hins vegar hefir hún munað eftir því, að Mýramenn eiga fulltrúa á þingi, sem er launa maklegur, og hefir því hækkað Borgarfjarðarbraut upp í 20 þús. kr. síðara árið. Einnig hefir hún munað eftir því, að Bjargtangar eru í Barðastrandarsýslu, og hefir því kipt þar burtu 14 þús. kr. til vitabyggingar. Þetta álít eg nú að ætti að nægja til þess að sýna, að það er þó dálítill flokksblær á meðferð Ed. á fjárlögunum í þetta sinn, og að það er ekki nema eðlilegt, þótt vér verðum frá vorri hálfu að gera eitthvað til að kippa þessu aftur í liðinn. Vér viljum unna háttv. mótflokksmönnum vorum alls góðs, en hitt er þó ofmikið, að þeir gíni yfir öllu, ekki fjölmennari en þeir eru.

Háttv. 1. þm. S.-Múl. (J. J.) talaði stór orð, sem hann vildi að sæust í þingtíðindunum. Það mun hafa verið ríkt í huga hans að tala fyrir fólkið, en síður hitt, sem satt er og rétt, eins og maður þekkir, þegar talað er við kjósendur úr þeirri átt. Hann fáraðist um tillögur þær, sem vor flokkur gerir nú til útgjaldahækkunar. En ástæðan til þeirra er sú, að vér neyðumst til að gera þetta, til að verjast yfirgangi í vorn garð. Og þegar um það er að ræða, hverjum tekjuhallinn sé að kenna, þá vil eg spyrja: Hverjum er það að kenna, að ekki eru gerðar ráðstafanir til þess að bæta fjárhaginn? Er það ekki einmitt hinum virðulega flokki hans að kenna? Vér höfðum komið fram með frumv. til laga um farmgjald, sem gert var ráð fyrir, að gæfi af sér 180 þús. kr. á fjárhagstímabilinu og samþykt það hér í deildinni. En Heimastjórnarm. í háttv. Ed. þykir eigi fjárhagsástandið verra en svo, að þeir fella þetta frumv. Sjálfstæðisflokkurinn reyndi líka að útvega tekjur með því að samþykkja lög um einkaleyfi á ölgerð og ölverzlun, en eftir því sem eg veit bezt, er það mál nú svæft í Ed. (Bjarni Jónsson: Nei, felt). Jæja, eg bið forláts, ef eg rugla saman frv., en þá er þetta aðeins því ljósara, og þetta hefði eg nú gaman af, að sæist í þingtíðindunum, samhliða, eða á eftir ræðu háttv. 1. þm. S.-Múl. (J. J.).

Þá vil eg svara háttv. 1. þm. Eyf. (H. H.). Hann gerði þá fyrirspurn, hvort eg hefði sótt um það fé, 1200 kr., sem farið er fram á handa forseta sameinaðs þings, til þess að sækja Göngu-Hrólfs hátíðina. Mér hefir sem forseta borist bréf, sem er til mín og annara meðlima þingsins, og hefi eg lagt það fram á lestrarsalinn. Þar er forseta sameinaðs þings boðið, og það er á þingsins valdi, hvað það vill að gera skuli í því máli. Eg hefi ekki komið þar nærri til annars en að leggja þetta fram, og svo var mér líka kunnugt um, að háttv. 1. þm. Rvk.

(J. Þ.) kom fram með þessa breyt.till. Annan hlut hefi eg ekki átt að þessu máli. En þar sem þm. fór með vanalegri góðvild í minn garð að ympra á því, hvort eg mundi vera sendilegur vegna kunnáttu minnar í frönsku, þá er því þar til að svara, að eg hefi áður bablað nokkuð í því máli, og jafnvel haldið ræður á því, en er nú orðinn — það skal eg játa — svo ryðgaður, að eg veit ekki, hvort eg mundi treysta mér til þess lengur. En þótt svo sé, þá yrði þó mín »repræsentation« aldrei lakari en hans var, þegar hann var ráðherra og var að fara út í skipin með túlk, eða þegar hann hafði sjóliðsforingjana í boði hjá sér og varð að gæta þess sem vandlegast, að hafa »chefinn« sem fjærst sér við borðið. Það yrði kannske eitthvað líkt um okkur í þessu, en fráleitt gæti það orðið verra hjá mér. En svo getur honum varla verið ókunnugt um það, að það er til annað mál, sem öllu fremur getur kallast heimsmál, og það er enska, og hygg eg, að eg mundi reyna að halda tölu á því máli, ef á þyrfti að halda. Forseta sameinaðs þings er ekki heldur boðið vegna þess, að það sé sjálfsagt, að hann kunni betur frönsku en aðrir, heldur vegna stöðu hans, til þess að »repræsentera« þingið og landið, og skal eg svo ekki fara frekar út í þessa sálma.

Loksins skal eg þá víkja að botnvörpusektunum. Það er merkilegt, að sú afturganga skuli enn vera að trana sér fram. Eg mótmæli því enn einu sinni, að Danir eigi þar nokkra samningskröfu á hendur oss. Danir hafa aldrei fengið loforð fyrir þessu fé, nema um ákveðinn tíma, því að eins og fjárl. ætíð bera með sér, gilda fjárveitingar þær, sem þar standa, eingöngu fyrir fjárhagstímabilið. Þess vegna gat enginn íslenzkur ráðherra bundið hendur vorar á þennan hátt lengur en fyrir þann tíma, sem fjárl. náðu yfir. Það sem villir háttv. 1. þm. Eyf. (H. H.) mun vera það, að Danir eru teknir upp á því, að taka upp ýmsar fjárveitingar, sem þeir kalla »gennemgaaende«, og færa þær inn í bækur fjárlaganefndar, en það er ekki siður hér. Og svo er að líta á það, hvers vegna þetta fé var veitt upphaflega. Það var veitt af misskilningi, af því að oss var þá enn ekki orðið það ljóst, sem oss varð ljóst síðar, og sem Dönum á að verða ljóst, og það er það, að því fer fjarri, að þeim sé ekki borguð landhelgisgæzlan, þar sem þeir hafa veiðiréttinn. Hann er meira að segja svo mikils virði, að þeir mættu vel borga nokkuð á milli. Það er einmitt þetta, sem Sjálfstæðisflokkurinn vill gera Dönum ljóst, að þeir fá fulla borgun, og það er smámunasemi, að heimta þetta, og það er misskilningur af einstöku þingmönnum, að vera að þjarka um þetta. Þessi draugur var kveðinn hér niður síðast, og eg vona, að hann verði aftur kveðinn niður nú, og það svo, að hann gangi ekki oftar aftur.