23.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 604 í B-deild Alþingistíðinda. (1078)

87. mál, fjáraukalög 1910 og 1911

Hálfdán Guðjónsson:

Eg ætla að eins að segja fáein orð um breyt.till. á þgskj. 281, um fjárframlag til þess að endurreisa kvennaskólann á Blönduósi. Eg veit að öllum þm. er kunnugt um, hversvegna þessi tillaga er fram komin, sem sé vegna þess, að skólinn brann á síðastliðnum vetri. En þótt nú þetta óhapp vildi til, þá hafa Húnvetningar nú samt ákveðið að endurreisa skólann og halda honum áfram. Það hefir verið svo nú nokkurn tíma, að þessar þrjár sýslur norðanlands hafa hver haft sinn skóla. Eyfirðingar gagnfræðaskóla, Skagfirðingar bændaskólann á Hólum og Húnvetningar kvennaskólann á Blönduósi.

Samskonar óhapp og fyrir okkar skóla í vetur, kom fyrir skóla Eyfirðinga fyrir nokkrum árum, þegar skólahúsið brann á Möðruvöllum í Hörgárdal, en þrátt fyrir það datt engum í hug að leggja þann skóla þá niður og svifta Eyfirðinga þannig skólanum; þvert á móti var skólinn endurreistur og umbættur, svo hann er nú fullkomnari en hann var áður.

Dálítið svipað kom fyrir hjá Skagfirðingum, Þar þurfti að byggja skólahús, þó varð það ekki ofaná að svifta þá skólanum af þeim sökum, heldur var húsið bygt og Skagfirðingar fengu að halda sínum skóla, eins og Eyfirðingar sínum skóla. En nú er kvennaskólinn, uppáhaldsstofnun allra Húnvetninga, brunninn, en áhugi þeirra á því að hlynna sem mest að þessari mentastofnun brann ekki um leið, og eg vona að undirtektir þingsins í þetta mál verði þær, að hann þurfi ekki að slokkna. Svo mikill var áhugi þeirra, að strax og skólinn var brunninn var kallaður saman sýslufundur fyrir báða sýsluhelmingana og þar var það einróma vilji allra að ráðast þegar í að reisa hann aftur, ekki eins og áður, heldur miklu betri og vandaðri og hafa húsið úr steinsteypu. Það var þegar í stað leitað til landsverkfræðingsins, að fá áætlun um hvað slíkt verk mundi kosta. Hann samdi lauslega áætlun og gerði ráð fyrir 25 þús. kr. kostnaði við að reisa gott steinsteypuhús. Til þess að standast þann kostnað hrekkur vátryggingargjaldið, sem var 19 þús., fyrir utan innanstokksmuni, ekki til. Í þessari áætlun er að eins um húsið sjálft að ræða og þess ber líka að gæta, að skuld hvíldi á gamla skólahúsinu, svo að ekki er til fyrirliggandi nema um helmingur alls kostnaðarins. Það varð því að leita til landssjóðs og er ekki farið fram á mikið, þótt þess sé vænst, að hann leggi fram ¼ kostnaðarins, einkum þegar þess er gætt, að skólinn á Blönduósi var ekki eingöngu fyrir Húnavatnssýslu, heldur var hann og talsvert sóttur úr öllum fjórðungum landsins. Eg vænti þess, að sýslan sjálf sjái um það sem á vantar og skil ekki í, að nokkrum þyki til of mikils mælst, þegar Húnvetningar halda uppi 3 hornum, að landssjóður lyfti undir það 4.

Það er engum efa bundið, að hefði skólinn ekki brunnið nú, var framtíð hans trygð. Hann komst í svo fastar skorður á seinasta þingi í sambandi við annan kvennaskóla, að við gátum verið óhræddir um hann. Eg vona nú, að háttv. þm. noti ekki brunann til þess að særa þá menn, sem skólinn er kærastur. Húnvetningar sitja nú á sýslufundi, því að fundurinn í vetur var aukafundur, og eg veit að þeir leggja eyrun að því, sem hér gerist. Eg vona að þau verði málalok, sem þeim séu til fagnaðar. Eg hygg það sé ekki ofmælt, að Húnvetningar hafi ekki síður en aðrir lagt bæði menn og fé til menningarmála landsins og væri því ómaklegt að neita þeim um um hjálp til þess að koma upp aftur brunarústum þessa óskabarns síns.