29.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1134 í B-deild Alþingistíðinda. (1350)

2. mál, hafnarlög fyrir Reykjavíkurkaupstað

Sigurður Sigurðsson:

Mér virðist, að mál þetta hafi, enn sem komið er, helzt til lítið verið rætt og athugað. Í sjálfu sér er málið stórmál og allþýðingarmikið fyrir þennan bæ og jafnvel landið í heild sinni. Það fer fram á stórfeld útgjöld fyrir landssjóð í beinu fjárframlagi, alt að 400,000 kr. og auk þess er gert ráð fyrir, að landssjóður ábyrgist yfir 1 miljón króna fyrir bæinn. Hér er því ekki um neinar smáupphæð að ræða.

Bæjarstjórnin hefir haft þetta mál til meðferðar og komið því, með tilstyrk þm. bæjarins, inn á þing. En að öðru leyti hefir bæjarbúum ekki gefist kostur á að segja álit sitt um málið. Hefði þó verið ástæða til að bera þetta mál undir borgarafund, og mig undrar það, satt að segja, að það hefir ekki verið gert.

Þegar ráðist er í fyrirtæki, sem hafa mikinn kostnað í för með sér, er skylt fyrir þá, er halda þeim fram, að gera sér og öðrum ljóst, hver hagsmunavon er að slíkum fyrirtækjum. En þessi hlið á hafnargerðarmálinu hefir enn ekki verið nægilega skýrð. Því hefir að vísu verið haldið fram, að hafnargerðin hefði þau áhrif meðal annars, að vörur, er hingað flytjast til bæjarins, mundu verða ódýrari en nú á sér stað, með því að öll afgreiðsla, svo sem ferming og afferming skipa o. fl. yrði þá miklu greiðari og kosnaðarminni. Skipin þyrftu þá ekki að tefjast hér vegna veðurs o. s. frv.

Það kann að vera nokkuð hæft í þessu, en á hitt er einnig að líta að samkvæmt frumv. leggjast allþung gjöld á skipin, er nota höfnina, og vörurnar í þeim. Í 10. gr. frumv. er talað um lestagjald, vitagjald, vörugjald o. s. frv. sem greiða á af þeim skipum og bátum, er hafna sig á hinni nýju höfn, til þess að standast kostnaðinn við hafnargerðina. Þessi gjöld leggjast vitanlega á vörurnar beinlínis og óbeinlínis og hækka þær í verði.

Þá er gert ráð fyrir því, að þegar höfnin er komin og fullgerð, þá komist hér á fót stórkaupasala og vöruupplag. Reykjavík verður þá miðstöð allrar verzlunar landsins, Það má vel vera, að sú verði raunin á og betur færi að svo yrði. En vekja vil eg athygli á því, að til þess að einhver von geti verið um þetta, þá verður að gera hafnarnotkunina aðgengilega. En nú óttast eg að gjöld þau, er 10. og 11. gr. frv. ráðgera, verði svo þungbær í sjálfu sér, að þau fæli menn frá að nota höfnina. En fari svo, verður hafnargerðin ekki að tilætluðum notum. Komi það í ljós, að útgjöldin við það að nota höfnina þegar hún er fullgerð, verði svo mikil, að það þyki eigi svara kostnaði, er ver farið en heima setið. Afleiðingin af því getur þá orðið sú, að hafnargerðin beri sig ekki.

Eg hefi bent á þetta til athugunar, án þess eg fullyrði neitt í þessu efni. En þetta og fleira gefur mér ástæðu til að ætla, að hér sé ýmislegt enn, sem ekki er athugað sem skyldi.

Framsögumaður, háttv. 2. þm. Rvk (M. B.) var eitthvað að minnast á hafnargerð austanfjalls við 2. umr. þessa máls hér í deildinni og að setja hana í samband við hafnargerð hér í Reykjavík. Eg held nú að það sé óþarft, enda ástæðulaust að vera að setja hafnargerð hér í samband við væntanlega höfn í Þorlákshöfn. Eg hefi það fyrir satt, að hafnargerð í Reykjavík hafi engin áhrif á það, hvort höfn verður gerð austanfjalls. Mér þykir líkur til, að höfn komi í Þorlákshöfn, að öllu forfallalausu, hvað sem hafnargerðinni hér líður. Það er að vísu ekkert fastákveðið um það, en fullar horfur á, að svo verði áður mjög langt um líður.

Að öðru leyti skal eg taka það fram, að höfn í Þorlákshöfn hefði ólíkt meiri þýðingu fyrir sýslurnar austanfjalls, heldur en þó höfn yrði gerð hér í Rvík. Hitt skilst mér jafnframt, að það mundi að sumu leyti til ógagns fyrir Reykjavíkurbæ, ef höfn kæmi austanfjalls. En þó ekki nema að sumu leyti. Höfn í Þorlákshöfn mundi verða til góðs þilskipaflotanum frá Faxaflóa. Það hlyti oft að koma sér vel fyrir fiskiskipin, að geta leitað hafnar þar í slæmum veðrum. Og það gæti einnig komið til tals, að fiskiskipin héðan legðu fisk sinn þar á land. Það sparar þeim ferð hingað, þegar þau eru á fiskiveiðum í Eyrarbakkabugtinni. Í stað þess að fara með aflann hingað og eyða til þess mörgum dögum, jafnvel viku til hálfum mánuði, gætu þau, með því að leggja fiskinn á land í Þorlákshöfn, komist af með 2—3 daga. Eru skipin þá óðara aftur komin út á fiskimiðin og með því lengdur sá tími, er þau eru að fiskiveiðum. Sjá allir, að hér er um stórt hagnaðaratriði að ræða.

Hins vegar kannast eg við það, að hafnargerð í Þorlákshöfn er ekki einhlít fyrir þennan bæ, og að hér muni þurfa að gera höfn, hvernig sem fer um hafnargerðina austanfjalls. En þá er að athuga það, hvort Reykjavík ekki getur fengið ódýrari höfn en þá, sem ráðgerð er með frv. Sú hlið málsins hefir enn ekki komið fram við umr. hér í deildinni. Það er sem sé kunnugt, að komið hefir til tals að gera höfn við Skerjafjörð, er ekki mundi kosta neitt svipað því, sem hér er um að ræða. Mér virðist fullkomin ástæða til að benda á þetta.

Hvað breytingartillögur mínar snertir, þá hefi eg farið fram á það, að fjárframlagi landssjóðs sé skift niður á 4 fjárhagstímabil eða 8 ár. Tel eg það hagkvæmara fyrir landssjóðinn, og jafnvel líka fyrir bæinn. Ef vinnunni við hafnargerðina er skift á mörg ár, geta bæjarmenn miklu fremur en ella notið hennar. Ef á að reka mikið áfram á fáum árum, verður óumflýjanlegt að fá vinnukraft annarsstaðar frá. Þetta hljóta allir að sjá og kannast við. Fyrir því álít eg miklu hyggilegra og affarasælla, bæði fyrir landssjóðinn og bæjarbúa, að verkinu sé ekki hraðað um skör fram, heldur unnið smátt og smátt.

Þá hefi eg komið með breyt.till. um lánsupphæðina, að hún sé færð niður í 800,000 kr. úr 1200,000 kr. Virðist mér það meir en nóg fyrir bæinn að taka að sér ábyrgð á þeirri upphæð, að minsta kosti til að byrja með. Eg er ekki með þessu að gera lítið úr gjaldþoli bæjarins. Hinu er ekki hægt að mótmæla, að bærinn hefir þegar færst allmikið í fang, og mun jafnvel naumast á það bætandi.

Benda vil eg háttv. flutnm. máls þessa á það, hvort eigi geti komið til mála, að erlend útgerðarfélög og kaupmenn, innlendir og útlendir, sem mundu nota mikið höfnina, legðu eitthvað af mörkum fram til fyrirtækisins. Mér hefir skilist, að það muni eigi hafa verið farið fram á slíkt, en væri nokkuð á móti því, að leita fyrir sér í þessu efni?

Loks vil eg geta þess, að lántaka til hafnargerðarinnar ætti helzt að bíða í þetta sinn. Áður langt um líður mun verða farið fram á það, að alþingi veiti landsstjórninni heimild til stórrar lántöku til arðvænlegs fyrirtækis. Á eg þar við hina fyrirhuguðu Flóaáveitu. Færi þá bezt á því, að þessi lán — til hafnargerðarinnar og Flóaáveitunnar — væru tekin undir eins og í sama stað. Það gæti meðal annars orðið til þess, að lánið fengist þá með betri kjörum en ella.

Eg býst nú við að sagt verði, að þessar breyt.till. mínar miði að því, að spilla fyrir hafnargerðinni hér. Þeir um það, er það segja. En fyrir mér vakir það eitt, að hér sé alt sem bezt athugað og undirbúið, og að landssjóði sé ekki með þessari lánsábyrgð stofnað í hættu. Skal eg svo ekki fara fleiri orðum um þetta mál, en vænti þess, að tillögur mínar verði samþyktar.