01.05.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 245 í B-deild Alþingistíðinda. (157)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Ari Jónsson:

Eg skal ekki segja nema örfá orð til þess að tefja ekki tímann.

Það er þá fyrst um breyttill. á þingskjali 822. Eg vil biðja háttvirta þingdeildarmenn að veita því eftirtekt, að hér er ekki farið fram á nema helming af því sem eg fór fram á við aðra umræðu.

(Lárus H. Bjarnason: Maður kann að lesa)

Er því nú enn meiri sanngirni og ástæða til þess að taka styrkbeiðnina til greina.

Þá er tillagan á þingskjali 823 um styrk til hreppsbúa í Árneshreppi. Eg get sætt mig við það, að styrkurinn sé veittur hreppnum í stað lækninum, en styrkurinn er alt of lítill og nær því engri átt að hann megi minni vera en farið er fram á; örðugar ferðir eru þar á milli, kostnaður við ferðirnar því afarmikill, svo að lítið verður afgangs í þóknun handa lækninum, ef styrkurinn er færður niður. Annars vísa eg til ræðu minnar, þegar mál þetta var til umræðu fyrst hér í deildinni.

Síðast vil eg fara nokkrum orðum um tillöguna á þingskjali 827, styrkinn til Jóns Ófeigssonar cand. mag, þar sem tilteknar eru 60 kr. fyrir örkina, Á síðasta þingi voru honum veittar 1000 kr. hvort árið, en hann hefir ekki tekið á móti þeim styrk, vegna þess að honum þótti ekki tilvinnandi að semja orðabókina og fá ekki nema 50 kr. fyrir örkina, eins og þá var ákveðið.

Það er því vafasamt, að hann vilji taka þetta að sér, fyrir 60 kr. örkina, þar eð honum mun þykja sú hækkun alt of lítil. Hann mundi vilja taka að sér að semja orðabókina, ef hann fengi 67—70 kr. fyrir örkina, og mun það vera svipað og neðri deild ætlaðist til.

Það er meiningin, að þessi bók verði betur úr garði gerð en aðrar samskonar orðabækur, er vér höfum, svo sem tekið hefir verið fram í háttvirtri neðri deild og professor Müller tekur einnig fram. Það er ætlast til þess að bókin verði miklu orðfleiri en þesskonar orðabækur, er vér nú höfum, sérstaklega að verzlunarorðum og alþjóðaorðum, en því stærri sem bókin er, því erviðara er að vinna fyrir lítið verð, þar sem um orðabækur er að ræða.

Eg vildi því mælast til þess að háttv. efrideildarmenn haldi sér að því sem neðri deild hefir sett; með því getur styrkurinn komið að tilætluðum notum.