20.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1355 í B-deild Alþingistíðinda. (1646)

66. mál, gjöld til holræsa og gangstétta í Reykjavík

Framsm. (Magnús Blöndahl):

Eg skal vera stuttorður að þessu sinni. Það er óskiljanlegt, hversu háttv. þingm. hengja sig fasta í viðhaldskostnaðinn. Í fyrsta lagi hefi eg þegar margtekið það fram, að hér er ekki um neinn viðhaldskostnað að ræða, og í öðru lagi gæti hann aldrei orðið tilfinnanlegur. Það er svo með þetta verk, að viðhaldskostnaður getur aldrei orðið mikill, hættan því nær engin á því, að holræsin bili, nema þá í því eina tilfelli, að stórkostlegan jarðskjálfta beri að höndum; en kæmi það fyrir, þá er eg hræddur um, að ekki mundi þurfa að kvíða fyrir, hvorki þessu gjaldi né öðrum.

Í öðru lagi getur það aldrei komið til mála, að borgurum bæjarins verði gert að skyldu að greiða viðhaldskostnaðinn, það er ekkert í þessu frumv., sem veitir neina heimild til þess. Þessi kostnaðargrýla er því hvergi til nema í höfði þessara fáu háttv. þingmanna. Það er því engum vafa bundið, að hér er einungis átt við þann kostnað, er stafar af því að leggja holræsin í fyrsta sinn niður í götur bæjarins.

Eg mótmæli því harðlega, að bæjarstjórnin muni fara fram á ábyrgð landssjóðs fyrir láni til þessa fyrirtækis. Eg get fullyrt, að sú getgáta nær engri átt og hefir ekki við neitt að styðjast. Málið er rækilega undirbúið, fyrst af bæjarstjórn og síðan rætt hér á 3 fundum, enda engin andmæli komið fram gegn því fyr en í dag. Sú staðhæfing háttv. þingm. N.-Þing.

(B. Sv.), að leigjendur muni ekki vera þessu máli fylgjandi, er ekki á rökum bygð. Leigjendur munu fegnir vilja vinna það til, þó að húsaleiga hækkaði sem svarar 1 kr. um mánuðinn, því að auk þeirra þæginda, sem af holræsagerðinni hlýtur að leiða, þá hefðu menn á eftir mun betri tryggingu fyrir heilsu sinni og vellíðan. Þeim háttv. þingm., sem nú á síðustu stundu, hafa fundið sér skylt að snúast móti þessu máli, virðist ekki vera ljóst, hvern kostnað það hefir í för með sér. Vil eg því benda þeim á það, að hann getur aldrei orðið tilfinnanlegur. Flest hús hér í bænum munu vera virt til brunabóta á 5—6000 kr., hin langtum færri, sem fara þar yfir. Það mun einnig vel í lagt, ef gengið er út frá því, að húslóðir meðfram götu séu að meðaltali 30 álnir. Verður þá gjaldið 21—22 kr. Eg get ekki látið mér detta í hug, að nokkur húseigandi mundi ekki með ánægju vilja láta af hendi þetta gjald, þegar jafnmikið kemur á móti, eins og áður er margtekið fram ? : aukin þægindi og meiri trygging fyrir góðri heilsu og fl., fyrir utan það, að húseignir þeirra mundu hækka í verði.

Þeirri meinloku — um erfðafestulöndin — sem komið hefir fram hjá háttv. andmælendum þessa frumv. hefi eg áður svarað.

Háttv. 1. þm. Rvk. (J. Þ.) talaði um skyldu þá til hreinsunar á gangstéttum, er getur um í 5. gr. og gat hann þess, að undir þetta ákvæði mundi mega koma túnum og görðum. Þetta atriði þyrfti hann að athuga nánar, því ef hann læsi betur 5. gr., þá hlyti hann að sjá, að þar er einungis talað um gangstéttir, en tún og garðar geta naumast kallast því nafni. Gata getur ekki kallast stétt, og því síður tún eða kálgarður. Þetta ákvæði í 5. grein getur því ekki valdið misskilningi á nokkurn hátt. En það að hreinsa gangstéttina fyrir framan hús sitt er skylda, sem hvílir á húseigendum í flestum bæjum erlendis, enda yirðist það ekki nema sanngjarnt og sjálfsagt. En það, að fá lagða steinlímda stétt fyrir framan hús sín fyrir jafn lítið endurgjald og hér er farið fram á, eru svo góð og mikil hlunnindi, að 9 af hverjum 10 húseigendum mundu greiða slíkt gjald með mestu ánægju, og taka að sér að halda slíkri gangstétt hreinni.

Með því að leggja holræsi þessi og stéttar, er frumv. fer fram á, er hagur húseigenda bættur að stórum mun og eignir þeirra hljóta að hækka í verði. Hvernig sem á frumv. er litið, þá sé eg alls enga ástæðu til að fresta málinu nú, því það væri sama og að svæfa það að fullu á þessu þingi, þar sem svo er orðið áliðið þingtímans.

Eg skal svo ekki fjölyrða meira um málið, en vona að það fái greiðan gang út úr deildinni.