22.02.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 387 í B-deild Alþingistíðinda. (174)

10. mál, rannsókn bankamálsins

Steingr. Jónsson:

Eg vil leyfa mér að leiðrétta misskilning hæstv. ráðherra á ræðu minni. Hann sagði að eg hefði sagt, að afsetning gæzlustjóranna við Landsbankann hefði farið fram eftir skipun dönsku bankamannanna og furðaði sig á því, að eg kallaði þá bankaþjóna. Eg kallaði þá bankaþjóna, af því þeir voru ekki í stjórn Landmandsbankans. — En þetta sagði eg ekki, heldur kastaði eg fram þeirri spurningu, hvort það hefði verið samkvæmt skipun bankaþjónanna. Þá var það annað atriði í ræðu hæstv. ráðherra. Hann sagði, að eg hefði bara bent á háskann, sem stafaði af því að setja gæzlustjórana af, en ekki minst neitt á það, hvílíkan háska það hefði getað orsakað, ef stjórnin hefði látið það vera. En þetta gerði eg einmitt, eg sagði, að afsetningin hefði verið háskaleg, hvort sem hún hefði verið óhjákvæmileg, eða ekki. Þetta var það, sem mér fanst hæstv. ráðherra misskilja í ræðu minni. Annars stóð eg upp áðan til þess að gera grein fyrir atkvæði mínu í þessu máli, og vona að eg hafi sýnt, að eg bygði það á almennum, en ekki einstaklingslegum ástæðum.