22.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1736 í B-deild Alþingistíðinda. (2082)

9. mál, prentsmiðjur

Framsögum. meiri hl. (Bjarni Jónsson):

Eins og menn sjá af nefndarálitinu, þá hefir nefndin ekki getað fyllilega orðin sammála í þessu máli. Það, sem minni og meiri hlutann hefir aðallega greint á um, það er um nöfn hinna opinberu safna og um það, hvort atvinnugjald og sektir samkvæmt þessum lögum skuli renna í landssjóð eða til landsbókasafnsins. Að skylda bókaútgefendur til að gefa öllum opinberum söfnum á landinu eitt eintak af hverri bók, er mjög ósanngjörn álaga. Nú eru 4 opinber bókasöfn á landi hér, auk landsbókasafnsins og landsskjalasafnsins. Ef eg nú gef út tvær bækur á ári, og hvora 30 arkir að stærð og sel þær fyrir 10. aura örkina, þá er eg skyldugur til að gefa hverju af þessum söfnum 6 krónur, eða öllum fjórum til samans 24—25 kr. Þá er með því lagður á mig 24—25 kr. árlegur skattur fram yfir aðra menn. Ekki getur því verið þannig varið, að það þyki svo fjarska arðvænleg atvinna að vera rithöfundur á landi hér, að mönnum

virðist rétt að leggja á þá sérstaka skatta umfram aðra menn. Menn munu segja, að upplagið hafi upphaflega verið nógu stórt. Þá muni ekkert um þessi eintök, en þeir fái jafnmarga kaupendur fyrir það. En þar fara menn með rangt mál. Rithöfundurinn er sviftur þeim kaupendum, sem voru vissir, nefnilega söfnunum. Það gerði honum ekkert, þótt hann gæfi einhverjum fátækling eitt eintak af bókinni. Hann mundi ekki kaupa hana hvort eð er, og rithöfundurinn því ekki tapa neinu. Álaga þessi er mjög ranglát og kemur mjög ómaklega niður. Hitt virtist sanngjarnara, að landssjóður legði söfnum þessum fé, sem svaraði því, að þau gætu keypt þessi rit.

En hvað því máli viðvíkur, að skylda menn til að gefa útlendum söfnum rit sín, um það munu víst allir í þessari deild vera mér samdóma. Allir hljóta að sjá, hve réttlát slík fyrirskipun er.

Meiri hluti nefndarinnar varð sammála um, að viðhafa þau nöfn á mentastofnunum landsins, sem þær að réttu lagi eiga, en þó þótti rétt að setja hin gömlu nöfn aftan við í svigum, svo að ekki valdi misskilningi. Þessi nýju nöfn ætti að setja inn í fjárlögin og önnur lög, til þess að þau fái sem mesta festu í málinu. Þetta benti og háttv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ó.) á um daginn og þá leið höfum við valið.

Tillögu minni hl. um það, að sektir og atvinnugjald renni til landsbókasafnsins, getum við ekki aðhylst. Ef þau eru ekki látin renna beina leið í landssjóð, sem væri eðlilegast, þá virðist okkur, að háskólasjóðurinn ætti að ganga fyrir því. Það fé ætti að vera notað til gagns bókmentum vorum, og kæmi mest að gagni með því móti.

Eg held það sé óþarfi að fjölyrða meira um þetta mál að sinni, enda finst alt í nefndarálitinu og tillögunum.