18.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1765 í B-deild Alþingistíðinda. (2108)

9. mál, prentsmiðjur

Framsögum. meiri hl. (Bjarni Jónsson):

Eins og menn sjá, er frv. þetta orðið töluvert breytt frá því sem var.

Meiri hl. hinnar háttv. nefndar hefir sniðið töluvert burtu með brtill. sínum frá því seinast. Nefndin hefir ekki náð því, að bera sig saman öll nú síðast, en í samráði við þá þrjá, sem til náðist er nú ákveðið að taka aftur fyrstu tillögurnar, og setja aftur í þeirra stað brtill. á þgskj. 480, sem þýðir það, að landsbókasafnið fái ekki 4 eint. af hverri bók, heldur 2, en af bókum, sem fræðifélög gefa út, tiltekinn fjölda til bókaskifta við útlönd. Það er ekki nema sanngjarnt, að landsbókasafnið fái þessi eintök, þegar útgáfa bókanna er styrkt af opinberu fé, en verði annars að kaupa bækurnar, ef einstakir menn gefa þær út. Önnur breyting liggur ekki í þessu. Svo er stungið upp á því, að í staðinn fyrir 3. og 4. gr. komi till. á þgskj. 649. Það var sem sé komið ýmislegt inn í frumvarpið, sem ekki gat staðist, þegar amtsbókasöfnin voru komin inn. Ef þau hefðu öll verið tekin með, þá hefði orðið mikil verkatöf af því, að rita allar þær skrár sem þurfti. Svo var eitt atriði, sem komist hafði inn í frumvarpið, fyrir vangá okkar nefndarmanna, sem sé, að leggja kvöð á þær íslenzkar bækur, sem prentaðar eru erlendis, og er nú lagt til, að þetta falli burt. Nú vona eg að alt sé farið, sem hefir hneykslað menn, og að menn játi að frv. sé til bóta, eins og það nú er orðið.