06.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1898 í B-deild Alþingistíðinda. (2288)

34. mál, lögskráning mannanafna

Hannes Hafstein:

Hvaða skoðanir sem menn annars hafa, kemur mönnum alment saman um það, að eitthvert vit þurfi að vera í frumvörpum þeim, sem flutt eru inn á þingið, — en það finst mér ekki vera í þessu frumvarpi. Frumv. segir í 1. gr., að sú ein skuli lögmæt skrásetning mannanafna í opinberum skrám, að skírnarnöfn séu látin standa á undan föðurnafni, ef maðurinn er íslenzkur og á ekki ættarnafn en á eftir ættarheiti í nöfnum útlendra manna. Á hitt er ekki minst einu orði, hverjar afleiðingar það eigi að hafa fyrir hlutaðeiganda, ef nafn hans er rangt skrásett. Það er því ómögulegt að átta sig á því atriði

t. d., sem ekki virðist hafa svo óverulega þýðingu, hvort maður eigi að missa kosningarrétt sinn fyrir það, að kjörstjórn skráir nafn hans á kjörskránni öðru vísi, en hér er ákveðið, setur föðurheiti á undan skírnarnafni eða skírnarnafn á undan ættarnafni. Er það meiningin, að kjörstjórn eigi að neita að taka við atkvæði manns fyrir slíka »galla«, og alþingi að geta ónýtt kosningar fyrir slíka galla á kjörskrám? Er yfir höfuð meiningin, að nöfnin skuli skoðast sem óskráð og öll réttindi missast, sem við skráninguna eru bundin, sé ekki þessum kreddum fylgt?

Í 2. gr. frv. er fallinn burtu greinarmunurinn á Íslendingum, sem ekki hafa ættarnöfn og útlendingum. Þar er alment ákveðið, að enginn skuli skyldur til að sinna reikningskröfu, nema skírnarheitið sé tilfært á kröfuskjalinu á undan föðurnafni eða ættarnafni. Þar er þannig skipað, að því er útlendinga snertir, þveröfugt við það, sem segir í 1. gr. Á skrám á ættarnafnið að vera á undan, ella er skráningin ógild. Á reikningum á skírnarnafnið að vera á undan, annars þarf hann ekki að borga. Þetta er skýrt, þó ástæðurnar séu torskildar. Hitt sést ekki, hvort krafan á alveg að missast — falla niður sem goldin skuld, eða fyrnd krafa — ef nafnið letrast á reikninga öðru vísi en 2.gr. frv. tiltekur. Yfir höfuð virðist frumvarpið alt tóm vanhugsuð lokleysa, og er vonandi að háttv. deild sýni nú þegar eindreginn vilja sinn í að vera ekki að eyða tímanum til hégóma og felli frv. strax.