19.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1917 í B-deild Alþingistíðinda. (2312)

132. mál, stofnun húsmæðraskóla

Framsögum. (Pétur Jónsson):

Háttv. þm. Dal. (B. J.) gerði þá fyrirspurn til okkar nefndarmanna, hvers vegna hér væri farið fram á að breyta bændaskóla í húsmæðraskóla. Eg hygg, að nægileg grein sé fyrir því gerð í nefndarálitinu og því óþarft annað en vísa háttv. þm. þangað. Þó skal eg taka það fram, háttv. þm. til hægðarauka, að hér lá í fyrstu fyrir frv. um að gera þennan skóla jafnan hinum tveim bændaskólum, sem landið á, eða með öðrum orðum að stofna landsskóla, en nefndin leit svo á, að einmitt nú væri tækifæri til þess að stofna húsmæðraskóla, sem mikil þörf er á, en ef þessi þriðji bændaskóli væri stofnaður á undan, þá mundi það af fjárhagsástæðum skjóta því enn á allmikinn frest, að húsmæðraskóli yrði stofnaður hér á landi.

Í öðru lagi spyr háttv. þm. að því, hvers vegna nefndin ætlist til, að þessi eini húsmæðraskóli skuli einmitt vera á Eiðum. Nefndin hefir aldrei sagt, að þetta skuli verða eini húsmæðraskólinn á landinu. Þetta er vafalaust spor í þá átt, að fleiri verði stofnaðir síðar, en alls ekki því til hindrunar, heldur þvert á móti, ef þessi skóli gæfist vel. Nefndarálitið gerir að minsta kosti ráð fyrir fleiri slíkum skólum.

Í þriðja lagi spyr háttv. þm. að því, hvers vegna nefndin hafi ekki lagt það til, að Eiðaskólinn yrði samskóli fyrir húsmæðra- og bændaefni. Það kemur í fyrsta lagi til af því, að engin slík uppástunga lá fyrir nefndinni og í öðru lagi af því, að nefndin sá sér ekki fært að koma þessu við, nema með því móti, að húsmæðraskólinn yrði talsvert ófullkomnari og minni. Annað mál væri að koma upp húsmæðrakenslu á þeim stöðum, þar sem nú eru bændaskólar, við hliðina á þeim, bæði á Hvanneyri og Hólum. Að því gæti orðið talsverður hagnaður, einkum sparaðist talsvert við það að hafa sameiginlega kennara í sumum greinum. En það lá nú ekki fyrir á þessum stað, enda ómögulegt að koma því við. Nefndin hefir átt kost á að kynna sér málið rækilega og eg hefi sett mig grandgæfilega inn í það, með því að tala við þær konur sem hafa fengið fræðslu í þessu efni erlendis; er eg viss um, að þeim þætti samsteypuskóli fyrir búnaðarfræðslu karla og kvenna ekki geta komið til mála. Hitt er annað mál, að húsmæðraskóli og bændaskóli kynnu að geta verið í sama stað og haft hagræði hvor af öðrum.

Hvað fyrirkomulagið á þessum skóla snertir, þá er það hið sama og á samskonar skólum í Noregi og Danmörku, en fyrir því er gerð nákvæm grein í nefndarálitinu 1909, svo að óþarfi er að fara meira út í það nú.

Þá skal eg snúa mér að ræðu háttv. 2. þm. Húnv. (B. S). Hann hreyfði ekki að því er mér virtist, nokkrum verulegum ágreiningi. Hann sagði, að sú skoðun lægi bak við nefndarálit okkar, að við álitum einn skóla nægilegan fyrir Norður- og Austurland. Eg get frætt hinn háttv. þm. um það, að þetta kemur hvergi fram í áliti okkar og liggur alls ekki á bak við. Það er satt, að á þingi 1907 var fyrst gert ráð fyrir tveim skólum, öðrum fyrir Suður- og Vesturland, hinum fyrir Norður- og Austurland og að því vildu menn ekki ganga, en það kom af því, að Sunnlendingar kærðu sig þá ekki um slíkan skóla, eftir því sem virtist. Nú mun raunar annað álit á því máli, þótt það sé ekki komið fram hér á þingi. Eg get lýst því yfir fyrir mína hönd, að strax og talað var um húsmæðraskóla á þessum stað, sá eg að hann mundi aðallega koma Austurlandi að notum og því er sennilegt, að þurfi einn eða fleiri samskonar skóla síðar meir. En stofnun þessa skóla er því alls ekki til fyrirstöðu, að svo geti orðið á sínum tíma.

Háttv. þm. sagði, að skóli þessi mundi verða ófullnægjandi. Það er satt, ef fjöldi kvenna vill leita sér fræðslu í þessari grein, mundi skólinn verða það og jafnvel þótt 1—2 aðrir skólar væru líka, en það er betra að veifa röngu tré en engu og eg get sýnt fram á það, að þótt skólinn sé ekki nema einn, þá getur hann samt komið að nokkru gagni fyrir landið alt, þótt hann auðvitað verði mest sóttur úr héruðunum í kring. Í sambandi við samskonar skóla í Danmörku og Noregi standa aðrar kensluaðferðir. Það eru færanlegir 3 mánaða skólar í matreiðslu og þess konar. Sama kenslukonan kennir t. d. á 3 stöðum sama árið, 3 mánuði í stað. Þetta hefir gefist mjög vel í Noregi. Líka hefir verið höfð umferðarkensla, þar sem húsmæðrum hafa verið sýndar aðferðir í matreiðslu, eins og reynt hefir verið hér í landi með styrk búnaðarfélagsins og hefir líkað mjög vel. Þessi kensluaðferð hefir breiðst mjög út í Danmörku á seinustu árum. Það var byrjað á því þar veturinn 1900—01 með 632 nemendum, en árið 1906—07 voru þeir orðnir 8000. Til þess að slík kensla geti farið fram hér, þarf að ala upp konur, sem verið hafa á húsmæðraskóla fyrst og síðan gengið á skóla fyrir kenslukonur í húsmæðrafræðslu. Eins og nú er, þarf hvorutveggju skólana að sækja til útlanda, en ef þessi skóli kemst upp, þarf hálfu minna til útlanda að sækja, því eg tel víst, að konur af húsmæðraskóla hér fái inntöku á skóla kenslukvenna í Noregi.

Svo væri ekki óhugsandi, að hægt væri að koma upp kenslu fyrir þessar kenslukonur við kvennaskólann í Reykjavík. Eg held því, að þessi fyrsti skóli verði að miklu liði í bráðina. En hinsvegar býst eg þó ekki við, að látið verði lenda hér við, því ef aðsóknin að skólanum verður svo mikil, að úr því þyki nauðsynlegt að bæta, áður en langt um líður, þá verður það gert. Það verður enginn aukakostnaður við að hafa þarna húsmæðraskóla. Honum verður hvort sem er haldið uppi á kostnað héraðanna eða landssjóðs, annaðhvort sem bændaskóla, eins og verið hefir, eða húsmæðraskóla. Hér er þá einungis að ræða um að breyta fyrirkomulagi skólans þannig, að hann verði gerður að húsmæðraskóla. Það er auðvitað ekki víst, að Múlasýslurnar gangi að þessu, en það nær þá ekki lengra.

Háttv. 2. þm. Húnv. (B. S.) var að hafa á móti 8. gr. frv.; skildi hann greinina svo, að landssjóður væri skyldur til þess að halda uppi búskap á jörðinni. Þetta er ekki réttur skilningur á greininni og vil eg leyfa mér að lesa hana upp; hún hljóðar svo:

»Stjórnarráðið skal með aðstoð og ráði skólanefndar sjá um, að hæfilegur búskapur sé rekinn á skólajörðinni bæði eftir þörfum skólans, og til þess að viðhalda ræktun jarðarinnar. Reka má búskap þennan á landssjóðs ábyrgð, ef nauðsyn krefur«.

Hér er gert ráð fyrir, að fenginn sé maður til þess að reka búskapinn á eigin ábyrgð. En sé það ekki hægt, má reka hann á kostnað landssjóðs. Það er ekki heimilt að reka búskapinn á kostnað landssjóðs nema ef nauðsyn krefur, eða með öðrum orðum, nema ef ekki er hægt að fá neinn hæfan mann með hæfilegum kjörum. Það er því augljóst, að það er engin skylda eða heimild fyrir landssjóðinn að reka búskapinn á eigin kostnað, ef hægt er að fá þennan mann, Ákvæðið er nauðsynlegt, því ef ekki væri þessi heimild fyrir landið, gæti svo farið, að skólinn legðist niður. Eg skal svo ekki fara fleiri orðum um mál þetta, en vona það nái fram að ganga.