08.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1929 í B-deild Alþingistíðinda. (2323)

50. mál, landsbankalög

Jón Ólafsson; Herra forseti! Mér virðist þetta frumv. vera athugavert í ýmsum greinum. Eg býst við því, að háttv. þm. hafi tekið eftir því, að tilgangurinn með frv. er sá, að alþing er svipt því eftirliti með landsbankanum sem það hefir eftir núgildandi lögum. Alþing lætur að vísu landsstjórnina bera ábyrgð á gerðum sínum, en eftirlitinu er það svift með því, að gæzlustjóraembættin eru afnumin, og í þeirra stað settir þrír bankastjórar. Frv. fer einnig fram á lögskipaða rannsókn á hag bankans fimta hvert ár. Við höfum nú haft eina, og eg býst við því, að hvorki landsmenn né þingmenn langi til að hafa lögboðið slíkt fargan á landssjóðs kostnað með fimm ára millibili. Eg ætla annars ekki að fara út í einstök atriði þessa frv. að sinni. Sumt er í því nauðsynlegt og heppilegt, en allmargt býsna athugavert. Mér virðist sjálfsagt, að nefnd fjalli um málið, og álít þá réttast, að því sé vísað til bankarannsóknarnefndarinnar, sem kosin var hér í deildinni fyrir nokkrum dögum. Sú nefnd kynnir sér allan hag bankans, hvort sem er, og ætti því einnig hægast með að taka þetta frumv., sem hér er um að ræða, til íhugunar. Tillaga mín er því, að málinu verði vísað til bankarannsóknarnefndarinnar, að loknum umræðum.