17.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1982 í B-deild Alþingistíðinda. (2391)

96. mál, botnvörpulagaundanþága

Jón Magnússson:

Mér skilst það eigi að setja nýja rannsóknarnefnd í þetta mál. (Jón Þorkelsson: Allar nefndir eru rannsóknarnefndir), því að með öðru móti er ekki hægt að fá skýrslur. En eg vil enga rannsóknarnefnd hafa, því eg álít hana óþarfa. Eg þori að fullyrða, að botnvörpungarnir hafa ekki gert sig seka í landhelgislagabroti og eg stend við það, þangað til það er sannað, að þeir hafi brotið lögin. Og nú á að fara að taka þessi litlu forréttindi af okkar ötulustu fiskimönnum af því, að einhver hefir sagt, að botnvörpungarnir héðan hafi brotið lögin. Þingið getur ekki, að óskertum sóma sínum, tekið af innlendum botnvörpungum þessi forréttindi, meðan það hefir engar sannanir fyrir því, að lögin hafi verið brotin. Eg veit, að ekki er hægt að sanna, að botnvörpungarnir hafi misbrúkað þessa undanþágu. Og þótt öll deildin væri sett í rannsóknarnefnd, þá mundi hún ekki finna eitt einasta brot.

Eg þarf ekki að skýra mál þetta frekar. Það var á fullum rökum bygt að veita undanþáguna og botnvörpungarnir hafa ekki í neinu brotið hana af sér.