06.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1995 í B-deild Alþingistíðinda. (2412)

112. mál, merking á kjöti

Framsögum. (Björn Sigfússon):

Við frv. hafa komið fram brtill. frá h. háttv; þm. Dal. (B. J.) á þgskj. 296. Nefndin hefir tekið þær til íhugunar, en verður að leggja á móti þeim. Að vísu sýnist 1. brtill. meinlaus, um að á eftir »lögskipaðir dýralæknar« í 1. gr. frv. komi: »eða aðrir dýralæknar«, en nefndin leit svo á, að hún væri óþörf, þótt eg fyrir mitt leyti hafi ekkert á henni.

Þá er önnur brtill. við 2. málsgr. 1. gr., að sú málsgr. falli niður. Sú brtill. fer fram á að umsteypa mjög frv., og er nefndin eindregið á móti henni.

Aðrar brtill. eru flestar afleiðingar af þessari. Þó er 3. brtill. ekki í nánu sambandi við frumv.; hún fer fram á að að fella burt úr 2. lið 1. gr. orðin: »Stjórnarráðinu er heimilt að ákveða gjald fyrir stimplun kjötsins, sem þó fari eigi yfir 5 aura fyrir hvern kindarkropp«. Ef þessu væri slept, væri það sama sem að gefa dýralæknum fult einokunarleyfi. Nefndin er á móti þessari brtill., eins og hinum. Hún lítur svo á, að þar sem dýralæknarnir eru að eins 2, þá megi ekki útiloka, að aðrir þar til færir menn framkvæmi kjötskoðun, og er þá rétt, að stjórnarráðið ákveði einnig kaup þeirra. Má líkja þessu við það, sem lengi hefir verið gert, að setja læknum og yfirsetukonum reglur fyrir hvað háa borgun má taka.