03.03.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 521 í B-deild Alþingistíðinda. (260)

24. mál, vitar, sjómerki o. fl.

Framsögum. Augúst Flygenring:

Eg drap á það við 2. umræðu, að nauðsynlegt væri, að gerðar væru einhverjar breytingar á frumvarpinu, ef komast ætti hjá breytingum á því innan skamms tíma, er það væri orðið að lögum. Eg gat þess líka í því sambandi, að búast mætti við breytingartillögum við það við 3. umræðu. En þegar við nefndarmennirnir fórum að íhuga málið, sáum við, að breytingar á frumvarpinu yrðu að vera svo miklar og margar, að ilt yrði að koma þeim þannig fyrir, að laglega færi á. Okkur þótti því réttast að bæta nýrri grein í frumvarpið, þar sem svo væri kveðið á, að ákvæði um starfrækslu vita og sjómerkja skyldi setja í reglugerð, er stjórnarráðið semdi. Með þessu móti þótti okkur þessu efni komið í tryggilegra og réttara horf, heldur en ef við nefndarmennirnir færum sjálfir að setja eitthvað inn í lögin, er hér að lýtur. Eg tel sjálfsagt, að landsstjórnin mundi semja þessa reglugerð með aðstoð beztu manna, og að hún einkum færi eftir bendingum þess manns, er væntanlega verður falið á hendur eftirlit með vitum og sjómerkjum. Það yrði oflangt upp að telja, hvað yrði einkum ákveðið í þessari væntanlegu reglugerð. Það getur margt komið fyrir, er semja þarf ákvæði um og nokkur vandi verður máske úr að ráða fyrir stjórnina og umsjónarmenn þá, er hún skipar. En það er þá bót í máli, að reglugerðinni má alt af breyta og haga eftir kringumstæðum síns tíma, án þess að lögunum sjálfum sé í nokkru raskað. Sjáum vér því ekki að þessu verði hyggilega fyrirkomið á annan hátt og leyfi eg mér að síðustu að leggja það til, að hv. deild samþykki breytingartillöguna.