14.03.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 533 í B-deild Alþingistíðinda. (272)

48. mál, stýrimannaskólinn

August Flygenring:

Eg skal ekki þræta um það, hvort eg hefi snúið mér til nefndarinnar með þessa tillögu mína eða ekki. Eg talaði við einn mann í nefndinni — það var formaður nefndarinnar — og spurðist fyrir um það, hvort nefndin mundi ekki vera fáanleg til að taka þessa breytingartill., upp í frumv. og þessi nefndarmaður — háttv. form. nefndarinnar — skýrði mér svo frá, að nefndin vildi ekki sinna þessari málaleitun. Eg þekki annars ekkert sérstakt form fyrir því, hvernig maður á að snúa sér með erindi þessu líkt til einnar nefndar.

Um mótmæli háttv. þm. Vestur-Skaftf. er það að segja, að mér finnst rök hans vera létt á metunum. Hann lagði mesta áherzlu á kostnaðinn og kvað hann mundu verða töluvert meiri en 1200 kr. með því að svo og svo mikið mundi þurfa að kaupa af kensluáhöldum. En mér er kunnugt um að allgóð kennsluáhöld eru til í Stýrimannaskólanum í þessari grein, og skólastjóri hefir sagt mér, að hann byggist við, að þau áhöld, sem skólinn hefir nú, mundu verða mikið til fullnægjandi. Þessvegna hygg eg, að það mundi ekki geta haft neinn verulegan kostnað í för með sér, þó að einhverju smávegis þyrfti að bæta við.

Önnur mótbára háttv. þm. var í því fólgin, að þessi fræðigrein væri alveg óþekt hér, og því ekki hægt að fá fullnægjandi upplýsingar um málið að sinni. En þetta ætti einmitt að vera sterkasta ástæðan til að hrinda málinu áfram, sem fyrst, því að það er ekki við það unandi lengi, að þessi bráðnauðsynlega og óhjákvæmilega fræðigrein sé óþekt hér á landi, því síður sem þörfin á vélfræðingum fer stöðugt vaxandi. Að stjórnin þurfi að hafa þetta mál til meðferðar, sýnist mér ekki á neinum rökum bygt, með því líka, að eg hefi hugsað mér, að stjórnin fengi á sínum tíma nóg verkefni með því að semja reglugerðina um það, hvað kent skuli og prófin o. s. frv. Frumvarp það, sem eg ætla mér að flytja hér, um atvinnu við vélagæzlu, hefir við góðan undirbúning að styðjast og er á svo góðum rökum bygt að frekari undirbúningur frá stjórnarinnar hálfu er alveg óþarfur. Hinsvegar er einmitt í því frumvarpi gert ráð fyrir, að stjórnin setji reglugerð um kenslufyrirkomulagið, prófskilyrði og því um líkt, eins og eg hefi vikið að áður. Og þeirri reglugerð er auðvitað hægt um vik að breyta, eftir því, sem reynslan kynni að sýna, að þörf væri á.

Hitt get eg fallist á, að ekkert verkstæði er fyrir hendi, þar sem lærlingarnir gætu fengið praktiska þekkingu. En það mundi sjálfsagt verða langt að bíða eftir því, að gufuvélasmiðjum verði komið á fót hér á landi. Það verður ekki beðið eftir því; því að vélagæzlumenn er nú þegar farið að vanta tilfinnanlega. Þess vegna verður að tjalda því, sem til er, nota það bezta sem nú er fyrir hendi, nfl. járnsmíðaverkstæðin. Bóklega þekkingin getur orðið í góðu lagi. Eg þekki fleiri menn, sem hafa tekið próf í þessari fræðigrein og eru vel færir til að hafa á hendi kensluna og tel ekki óhugsandi, að þeir væri jafnvel fáanlegir fyrir 1200 krónur, eins og hér er gert ráð fyrir að borga. — Að vísu eru það of lág laun. —

Það er sár þörf á því, að hrinda þessu máli áfram. Það er óhæfilega löng bið að fresta málinu til næsta þings, því að gufuskipunum fjölgar óðum, en vélgæzlumönnum ekki að því skapi.