05.04.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 611 í B-deild Alþingistíðinda. (359)

122. mál, frestun aðflutningsbanns

Sigurður Hjörleifsson:

Þetta mál er þá loksins komið inn á þingið. Satt að segja hefi eg átt von á því fyrir löngu. Eftir þeim mikla gauragangi um land alt til fjandskapar gegn aðflutningsbannslögunum, þá hefði mátt búast við því, að óvinir bannsins flyttu frumv. í þessa átt þegar í byrjun þings, því átti eg von á, en eg átti ekki von á, að það kæmi frá háttv. þm. Ísafjarðar, sem greiddi atkvæði með bannlögunum á síðasta þingi. Eg gat trúað, að tillaga um að fresta lögunum kæmi frá eiuhverjum þeirra manna, sem börðust á móti þeim. En eg átti alls ekki von á, að slík tillaga kæmi frá þeim, sem áttu þátt í að koma málinu fram á síðasta þingi. Það þykir mér undarlegt hvik. Eg gat líka búist við því úr annarri átt. Það var hugsanlegt, að hæstv. ráðherra vildi flytja tillögur í þessa átt til þess að auka tekjur landsjóðs, eða sá flokkur, sem hann styðst við á þinginu. Eins og nú er komið, er það þeim skyldast að sjá fyrir fjárhag landsins. Þessvegna er undarlegt, að þetta mál skuli nú koma frá þeim, sem ekki bera neina ábyrgð eða að minsta kosti ekki eins nána ábyrgð á fjárstjórn landsins og stjórnarfarinu yfir höfuð. Það er ekki svo að skilja, að eg sé að lasta háttv. þm. Ísafj. fyrir þetta. Eg veit, að hann ber þetta mál fram eingöngu af því, að hann álítur það gott mál, og það er sjálfsagt að virða það og meta. Annars var ræða hans að mestu leyti óviðkomandi málinu sjálfu, eða snerti það að minsta kosti ekki beinlínis. Hann talaði um, hve bágborinn fjárhagur landsins væri, án þess þó að koma með neinar verulega ábyggilegar tölur. Og mér fanst hann tala meira af hita en rólegri yfirvegun á fjárhag landsins. Eg er honum alveg sammála um, að þingi og stjórn ber að gæta allrar varúðar í fjármálunum. Hagur landsins er alt annað en álitlegur sem stendur. Og einmitt þetta, hve fjárhagsástandið er slæmt, er fylsta sönnun þess, að háttv. þm. Ísafj. og aðrir þeir, sem vildu draga úr fjárveitingum á síðasta þingi, hafa haft rétt fyrir sér, en hinir rangt, sem sögðu, að það væri verið að svíkja þjóðina, þegar verið var að halda fjárbruðlinu í skefjum. En hinsvegar er þó víst, að of mikið má gera úr því, hve bágborinn fjárhagurinn er. Eg held, að það sé ekki til neins góðs að æðrast yfir því, sem orðið er. Það gerir bara ilt verra. Það er um að gera að líta rólega á þetta mál eins og annað, og haga sér eftir því. Það bætir ekki neitt úr, að telja okkur komna að gjaldþroti og að landsjóður sé nálægt því að geta ekki int af hendi skyldugjöld sín. Þessi ummæli eru líka því undarlegri, þar sem sami háttv. þingm. hefir nýlega skrifað undir nefndarálit, þar sem því var haldið fram, að landsjóður hefði getað snarað út 750 þús. kr. í ársbyrjun 1910, til þess að borguð yrði skuld, sem var að ræða um. Það álit háttv. þm. er ekki í samræmi við þá skoðun á fjárhag landsjóðs, sem hann nú hefir látið í ljósi.

Annars vil eg benda á það, að eftir því, sem nú horfir við, hygg eg að þessi sterku ummæli um fjárhagshorfurnar séu ekki fullkomlega á rökum bygð. Á fjárlagafrumv. stjórnarinnar fyrir fjárhagstímabilið 1912—1913 eru tekjur landsjóðs áætlaðar kringum 2,900,000 kr. Beri maður þetta saman við virkilegar árstekjur árin 1908 og 1909, þá reyndust tekjurnar 3,152,000 kr., með öðrum orðum, að árin 1908 og 1909 reyndust tekjurnar kringum 250 þús. kr. hærri en áætlaðar tekjur á því fjárhagstímabili, sem nú fer í hönd. Samt sem áður skal eg ekki halda því fram, að fjárhagsástandið sé gott, það dettur mér ekki í hug. Og hér kemur fleira til greina, það játa eg. En þá er spurningin, er ekkert hægt að gera til þess að bæta fjárhaginn? Er þjóðin og þingið sá aumingi að geta ekkert gert nema ráðast á aðflutningsbannlögin? Það eru andlegt og pólitískt gjaldþrot, að geta ekkert fundið upp annað en þetta eina, þetta neyðarúrræði. Og hvernig hefir verið farið að á þessu þingi, það sem af er? Þingið hefir haft mikið að gera við það að hrinda af stóli stjórninni sem var. En það hefir ekkert verið hugsað um neitt, er að fjárhag landsins lýtur. Og þingið hefir gert annað, það hefir setið á þeim gjaldstofnum, sem stjórnin hefir bent á. Það kemst ekkert áfram af þeim málum, sem horfa til að bæta fjárhag landsjóðs. Þess vegna eru fjárhagshorfurnar svona óálitlegar. Ef frumv. um farmgjald, sem nú liggur fyrir þinginu, verður samþykt, þá fær landsjóður kringum 200 þús. kr. af því, sömuleiðis liggur fyrir tillaga um að hækka lítið eitt toll af kaffi og sykri. Það mundi gefa landsjóði 60—70 þús. kr. tekjur. Hér er sannarlega hægt að finna nóga tekjustofna fyrir landsjóð, þó að áfengistollurinn missist. Eg get bent á fleira, t. d. aukning á útflutningsgjaldi af hvalafurðum. Slík hækkun væri fullkomlega réttmæt, borið saman við önnur útflutningsgjöld t. d. á síld.

Eg held líka, að það sé rétt, að þó að framkvæmd bannlaganna verði frestað um 3 ár, þá muni það ekki hafa nema lítilfjörlegan tekjuauka í för með sér á næsta fjárhagstímabili. Hitt skal eg játa, að landsjóður mundi hafa mikinn tekjuauka af þessum 3 ára fresti, en sá tekjuauki kemur aðallega fram eftir næsta fjárhagstímabil. En eins og háttv. þingm. taldi, að fráfarandi stjórn hefði verið innan handar að útvega landsjóði tekjur á undanförnum árum, eins hlýtur hverri annarri stjórn að vera innan handar að útvega tekjur fram að næsta reglulega alþingi, og það því fremur, sem stjórnin á væntanlega kost á að ráðfæra sig við aukaþing einmitt á þessu tímabili. Það má því sannarlega bæta úr fjárhag landsins í tæka tíð, þó að ekki sé gripið til þessa úrræðis.

Háttv. þingm. talaði mikið um skuldir okkar Íslendinga. Eg get nú að mörgu leyti tekið undir það. Við erum heldur örir á að stofna til skulda. En við bætum ekki úr með því að drekka brennivín. Við gætum bætt úr því með ýmsu öðru, en alls ekki með því.

Ennfremur sagði hann, að lánstraust okkar væri alveg glatað eða stórspilt. En eg vil benda á, að þetta er alt of mikið sagt. Það er alls ekki sjáanlegt, að lánstraust landsins sé á leið að glatast. Eg held þvert á móti, að lánstraust landsins hafi aldrei verið betra en nú. Í því sambandi vil eg minna á orð hæstv. ráðherra hér í deildinni um daginn, þegar hafnarmálið var til umræðu. Hann kvaðst ekki telja neinn vafa á því, að það væri hægt að fá 2 miljón kr. lán. Eg er sammála hæstv. ráðherra, að það mundi ekki verða nein vandræði að fá þetta lán og eg get trúað, að það væri hægt að fá miklu meira lán til arðvænlegra fyrirtækja. Hitt dettur engum í hug að taka stór lán, til þess að nota það sem eyðslufé. Ef um arðvænlegt fyrirtæki er að ræða, þá er það í alla staði forsvaranlegt að taka lán, til þess að koma því í framkvæmd, en annars er það ekki forsvaranlegt. Það sem hefir hleypt útgjöldunum mest upp á undanförnum árum og gert mestan tekjuhalla á fjárlögunum, eru símalagningar. En þar sem símalagningar borga sig, sýnist engin frágangssök að kosta til þeirra, jafnvel þó að taka þyrfti lán til þess. — Enn verð eg að neita því, að nokkur sönnun sé komin fram fyrir því, að þessu þingi takist ekki að gera fullgóð fjárlög. Eg hygg, að það megi vel takast með þeim tekjuaukum, eða tekjustofnum, sem hægt er að benda á, ef þingið vill aðhyllast þá.

Eg vil benda á, að þetta frumvarp, eins og það er orðað, er alt annað en lítilræði frá sjónarmiði þeirra, sem vilja styðja aðflutningsbannið. Eftir frumv. á að fresta öllum bannlögunum frá síðasta þingi um 3 ár. Frumv. verður ekki skilið öðruvísi. Háttv. flutningsmaður talaði svo, sem hér væri aðeins að ræða um að fresta banninu gegn innflutningi áfengis, en í frumv. er mælt svo fyrir, að bannlögunum skuli frestað. Þetta hefir mikla þýðingu, því að í lögunum eru ýms ákvæði um annað en innflutning áfengis. Öllum ákvæðum laganna á að fresta eftir þessu frumvarpi eða að minsta kosti er ekkert tiltekið hver eigi að standa, og hver ekki. T. d. er eitt ákvæði laganna þess efnis, að ekki megi framlengja leyfi til vínsölu. Eftir frv. á þá að fresta þessu ákvæði líka.

Ræða mín hefir snúist aðallega að fjárhagsástandi landsins, og er það eðlilegt, því að ræða háttv. framsögumanns var eingöngu þess efnis. Eg álít réttast að fara minna út í hina hlið málsins, sem var rædd ítarlega á síðasta þingi, um réttmæti þessarar ráðstöfunar, aðflutningsbannsins. Það sem þá var sagt málinu til stuðnings, er jafngott og gilt enn þann dag í dag. Og hafi ráðstöfunin verið réttmæt þá, er hún engu síður réttmæt enn. Og þó að við bætist nú þessi ástæða á móti banninu, að fjárhagur landsjóðs sé þröngur, þá er það eingöngu því að kenna, að þingið hefir ekki gert sitt til að bæta úr fjárhagnum, með því að koma fram lögum í þá átt. En þetta er engin ástæða til þess að taka aftur þá ráðstöfun, sem síðasta þing gerði í bannmálinu.

Eg fyrir mitt leyti álít enga þörf á nefnd í þetta mál og mun greiða atkvæði á móti því, að frv. gangi til 2. umræðu.