30.03.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 841 í B-deild Alþingistíðinda. (619)

117. mál, fiskveiðar útlendra við Ísland

August Flygenring:

Eg vildi geta þess, að eftir mínum skilningi er þetta mál ekki eins einfalt eins og háttv. flutningsmaður vildi vera láta. Það er að mínu áliti eitthvert mesta vandamál, að sigla hér rétt á milli hagsmuna innlendra manna og réttar þess, sem útlendingar þó eiga í landi, sem þeir fiska við, eða halda til í, og sem borga hér háa tolla, svo sem þeir gjöra, er fiska fyrir norðan Ísland. Eg veit nú ekki, hvort tilganginum yrði náð, þótt þetta ákvæði kæmist á og því yrði beitt, því það eru til ótal krókaleiðir fyrir norðan land um andnes og firði, sem þessir menn geta farið, og ekki hægt að vita glögglega um ferðir þeirra. Varðskipið getur ekki verið alstaðar. Það er ekki nema eitt. Eg hygg að í framkvæmdinni mundu þessi lög reynast svo, að þeir, sem hlýddu þeim, töpuðu á því, en þeir sem skytu sér undan þeim, mundu græða. Þau mundu því koma órétt niður að mínu áliti, auk þess, sem að frumvarpið mundi verða þrándur í götu fyrir veiðinni, sakir þeirrar tímatafar sem það hefir í för með sér, að taka inn hringnætur og stafla í búlka, ef fara þarf inn fyrir landhelgislínuna. Mönnum er kunnugt um það, að þessi veiði er stunduð þannig, að þeir, sem hana reka, hafa stöð á einhverjum firði, þeir skifta nótinni í báta, sem kasta henni, svo hún er altaf til taks, enda er þeim það mjög áríðandi. Það er örskamt út fyrir landhelgina, ekki nema 3 vikur sjávar eða ¾ úr mílu, svo þó að þeir byrjuðu strax, þegar lagt er á stað, að hafa til næturnar, mundu þeir ekki verða nærri búnir þegar út kæmi, hvað þá heldur ef ekki mætti snerta næturnar fyr en komið væri út fyrir landhelgina, eins og hér er farið fram á. Svo er enn það, að þegar út er komið, þurfa skipin að fara hingað og þangað, þurfa oft að sneiða yfir landhelgina; þeim er þá nauðsynlegt að mega halda nótunum í bátunum. Þau geta illa hlaðið þeim í búlka hvert sinn, sem þau þurfa yfir landhelgislínuna, t. d. til að stytta sér leið. Auk þess mun verða erfitt að hafa eftirlit með skipunum og því hætt við að lögin mundu koma mishart niður á mönnum. Það færi eftir því, hvernig þeir væru gerðir. Eg mun ekki greiða atkvæði á móti því að frumv. gangi til 2. umr. Vil fá tíma til að hugsa mig um, og reyna að gjöra þær breytingar á því, að það ekki verði ómögulegt í framkvæmdinni.