27.04.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 164 í B-deild Alþingistíðinda. (84)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Gunnar Ólafsson:

Eg á enga breytingartillögu við þennan kafla, en það er þó ýmislegt, sem mér finst athugavert litið við breytingartillögur nefndarinnar, þó eg vilji ekki álasa nefndinni fyrir það, sem mér finst miður fara. Það er svo hér sem oftar, að sitt sýnist hverjum. Maður verður að virða viðleitni nefndarinnar til þess að leiðrétta misfellur þær, sem voru á fjárlögunum frá háttvirtri neðri deild og með tilliti til þess að fjárhagurinn er ekki góður hefir hún sjálfsagt haft huga á því að spara útgjöldin.

Mér hefir þó fundist háttvirt nefnd helzt til sparsöm að sumu leyti, og kannske full ríf að öðru; um þetta má raunar þrátta, en eitt atriði vildi eg þó benda á, sem miður viðeigandi, það er 17. breytingartillaga nefndarinnar við 13 gr. B. III. 4, að feldur sé niður þjóðvegurinn í Austurskafta-fellssýslu, svo og þjóðvegurinn milli Hjarðarholts og Ljárskóga.

Háttvirtur framsögumaður tók það fram, að nefndin hefði þá skoðun að flutningabrautir ættu að sitja í fyrrirrúmi fyrir þjóðvegum, og því yrðu þeir að bíða fyrst um sinn, og bar hann þar fyrir sig álit verkfræðingsins. Það er rétt að verkfræðingurinn hefir þessa stefnu og skal ég ekki deila um það, en þótt flutningabrautir sé sjálfsagt og réttmætt að styðja, þá er það engu síður um þjóðvegi, að minsta kosti að nokkru leyti.

Það er óviðfeldið, sem nefndin leggur til um þjóðvegi, er hún vill ekki sinna þeim, því þó að hún vildi leggja mesta áherzluna á flutningabrautirnar, þá eiga þó þjóðvegirnir einhvern rétt á sér. Austur Skaftafellssýsla hefir ekki hingað til verið kröfuhörð, enda ekki hlotið mikið úr landsjóði, svo ég viti, og því fremur virðist sanngjarnt að þetta fái að standa, eins og háttvirt neðri deild hefir gengið frá því. Þessi vegur er mjög nauðsynlegur að sögn kunnugra manna, og er sjálfsagt að hlynt sé að öllum héruðum landsins og bætt úr, þar sem þörfin er mest.

Eg vildi því leyfa mér að leggja það til, að þessi uppástunga nefndarinnar nái ekki fram að ganga, sérstaklega að því er kemur til Austur Skaftafellssýslu.

Eins og ég tók fram í upphafi, hefi ég ekki komið fram með neina breytingartillögu við þennan kafla og mun því ekki verða langorður, en vil aðeins benda lítillega á fá atriði.

Eg felli mig vel við athugasemd nefndarinnar um gufubátsferðir og mótorbáta. Að eins vil eg skjóta því til hinnar háttvirtu nefndar, hvort hún vilji ekki bæta aftan við athugasemd sína að ferðaáætlanirnar verði samdar í samráði við sýslunefndirnar, sem hlut eiga að máli.

Sýslunefndirnar eru kunnugri, hvernig til hagar og geta betur ákveðið, hvernig ferðum skuli haga, en stjórnarráðið, og tel eg því réttmætt, að þær hefðu að nokkru frumkvæði um ferðirnar.

Þar sem nefndin leggur til að liðurinn um starfrækslu loftskeytasambands milli Reykjavíkur og Vestmannaeyja falli niður, þá er það í samræmi við það að fjárveitingin til loftskeytasambands félli niður í fjáraukalögunum. Eg mæli með að þessi liður sé þó látinn standa enn, þar sem ekki er óhugsandi, að til loftskeyta verði veitt. Frumvarpið er einmitt nú til umræðu í háttvirtri neðri deild.

Þó að það mál komi lítið við mig, þá kann eg illa við þetta skilyrði fyrir fjárveitingu til kvennaskólans í Rvík, að 1500 kr. komi annarstaðar frá. Eg veit ekki, hvaðan það fé ætti að koma. Og að hinu leytinu álít eg ekki sanngjarnt að heimta fé til skólans á þennan hátt, því það er í rauninni sjálfsagt, að landið leggi fram fé til mentunar kvenna, engu síður en karla; það horfir engu síður til þjóðþrifa.

Sömuleiðis vil eg geta þess, að eg felli mig ekki við, að styrkurinn til Blönduósskóla verði feldur niður. Mér finst það hálf óviðkunnanlegt, að enginn slíkur skóli sé til á Norðurlandi, og þessi skóli hefir verið til mikils gagns og hefir verið rekinn með miklum dugnaði og kostnaði af hálfu sýslunnar. Eg held, að það sé rétt að veita þennan styrk til að halda áfram skólanum, því að sýslubúar munu vera einráðnir í því að byggja hann upp aftur. Eg vildi að eins taka þetta fram, að eg álít heppilegra að komast að annari niðurstöðu í þessum efnum.