17.02.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 7 í B-deild Alþingistíðinda. (874)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Ráðherrann (B. J.):

Það er eins og vant er allangt mál, fjárlagafrumvarpið með athugasemdunum eða ástæðunum fyrir því, og ekki hugsa eg, að eg bæti það ritkorn með nokkurri ræðu á þessu stigi málsins, læt mér nægja að vísa til athugasemdanna að svo stöddu. Eg skal benda á það, sem öllum mun vera ánægjuefni, að tekjuhallinn er enginn eða nálega enginn áætlaður eftir frv., og er það nýtt, því að nú um margt ár hefir jafnan verið gert ráð fyrir tekjuhalla eigi alllitlum í fjárlagafrumv. stjórnarinnar. Í þessu frumv. er gert ráð fyrir að eins 11—12 þús. kr. tekjuhalla. Ástæðan er vitanlega sú, að stjórnin hefir eftir megni reynt að draga úr útgjöldunum, en tekjur hinsvegar ekki áætlaðar hærri en seinast var. Af útgjaldaliðum, sem dregið hefir verið úr má nefna t. d. Rangárbrúna, sem mikið hefir verið rætt um á síðasta þingi, en náði þó ekki fram að ganga. Fjárveitingu til þeirrar brúar hefir verið slept nú, með því að stjórnin leit svo á, að mönnum mundi ekki þykja óhjákvæmileg nauðsyn á liggja að brúa þá á nú fremur en á síðasta þingi. Sömuleiðis hefir lítið verið veitt til símlagninga nýrra, og þó nokkuð, en þótt minna sé heldur en símastjórinn ætlaðist til. Til samgöngubóta mun vera gert ráð fyrir minna en margur mundi kjósa, og þó ekki alllitlu fé. Nokkuð hefir verið felt burt af styrkveitingum til vísinda og verklegra framkvæmda; kemur það oftast af því, að stjórnin hefir þá ekki fengið skýrslur um, hversu styrkþegar hafa varið styrk þeim, er þeir hafa fengið, þótt svo sé til ætlazt.

Vitanlegt er það, að frv. þessu verður gerbreytt á þinginu, því að sjaldan hefir það haft mikið að segja, hvað stjórnin leggur til í fjárlagafrv.

Það hefir verið siður undanfarin ár að gefa dálitla skýrslu um fjárhagsástand landssjóðs. Eg skal leyfa mér að geta að nokkuru hversu tekjum landssjóðs hefir verið háttað síðastliðið ár, árið 1910.

Kaffi og sykurtollur nemur rúmum 400 þús. kr.

Tóbakstollur fullum . . . 200 " "

Vínfangatollur 182 " "

Útflutningsgjald 169 " "

Þessir tekjuliðir eru langhæstir.

Þar næst eru:

Aukatekjur 62 þús. kr.

Ábúðar- og lausafjárskattur 50 " "

Vitagjald 36 " "

Allir aðrir tekjuliðir þaðanaf minni.

Samtals nema tekjur landssjóðs árið 1910, 1,213,700 kr. Við samanburð á þessari skýrslu og skýrslu um tekjur landssjóðs 1909 kemur það í ljós, að allir eða allflestir tekjuliðir hafa hækkað að mun síðastliðið ár.