14.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 606 í B-deild Alþingistíðinda. (1035)

65. mál, fátækralög

Flutningsm. (Matthías Ólafsson):

Herra forseti! Eg bjóst við svo góðum undirtektum undir þetta mál, að ekki mundi þurfa að hafa miklar umræðar um það. En nú er annað komið á daginn, því að það eru ekki færri en 3 brt. við frv., sem fram hafa komið. Eg hefi áður minst á hvers vegna brt. frá nefndinni í þá átt að á eftir orðunum „á sjúkrahúsi“ verði bætt við „hvort heldur utanlands eða innan“, hefir verið borin fram, og þarf eg því ekki að tala um hana nú.

En eg get ekki stilt mig um að minnast á brt. á þgskj. 213, frá þeim hv. þm., 2. þm. Húnv. (Tr. B.), 1. þm. Skg. (Ó. Br.) og 1. þm. Árn. (S. S.). Eg álít að sú breyting geri ekki ástandið betra en það er eftir núgildandi lögum, heldur verra.

Eftir því sem eg hefi nú sagt, væri mér ekki á móti skapi fyrri hluti brt. á þgskj. 213, en get með engu móti sætt mig við seinna hlutann, sem setur takmark við því, hvað greitt sé úr landssjóði. Mér hefir verið sagt, að úr landssjóði hafi verið greitt í legukostnað með sjúklingum samkvæmt 77. gr fátækralaganna 1905 síðasta ár nálega 10 þús. kr. Mér ægir ekki sú upphæð, jafnvel ekki þótt verið hefði 20 þús. kr. Það er falleg hugsun að hlaupa undir bagga með sjúklingum, og ekkert eðlilegra en það, að það geri sá stóri sjóður, sem allir eiga, landssjóður. Eg held, að ekki geti komið til mála, að þetta verði misbrúkað, t. d. að sendir verði ólæknandi menn á spítala. Mannslífið er dýrt, og það er skylda, meðan nokkur von er, að reyna það, sem unt er til bjargar.

Eg vil óska þess að nafnakall verði haft um frv. Eg vil láta slag standa og sjá svart á hvítu hverir hafa hug til að greiða atkv. gegn frv.