17.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 663 í B-deild Alþingistíðinda. (1120)

87. mál, strandferðabátar

Ráðherra (H. H.):

Hv. þm. Dal. (B. J.) virðist blanda sarnan privatútgerð og landssjóðsútgerð. Það var reyndar ekki í síðustu ræðu hans, heldur þeirri næstu á undan. Því fer fjærri að eg vilji ekki hafa útgerðina innlenda; eg hefi einmitt hvað eftir annað lýst því yfir, að eg telji það langæskilegast að semja við og styrkja innlent félag. Þau ummæli, sem hann kom með í lok ræðu sinnar, um þá menn, sem játuðu að þetta princip væri gott, en vildu ekkert gera til að styðja það, eru gersamlega ástæðulaus að því er mig snertir.

Háttv. flutn.m. (J. Ó.) lét það í ljósi, að nú stæði svo á um verð á skipum og skipsbyggingum yfir höfuð, að landið ætti það víst að geta selt þessi skip aftur eftir 2—3 ár. Eg er nú ekki viss um, hvað rétt það er, og hann getur ekki vitað það heldur. (Jón Ólafsson: Er óhugsandi að eg viti meira um þetta en hæstv. ráðherra?) Þessi skip, Austra og Vestra, er ekki hægt að brúka nema í einstökum tilfellum vegna þess hvað þau eru lítil. Þau eru t. d. alveg ófær milli landa vegna þess hvað þau hafa lítil lestarúm. En þau geta verið vel brúkleg á sérstökum stöðum til farþegaflutnings þar sem alveg sérstaklega hagar til, þess vegna vildi að sögn Austur-Asíufélagið kaupa þau til að koma þeim fyrir á ám í Austur-Asíu; en það tilboð er nú væntanlega burtu fallið eða stendur í öllu falli ekki lengi, því félagið hefir nóg ráð til þess að þurfa ekki að vera vonbiðill lengi.

Af því að þessir bátar eru til svo takmarkaðrar notkunar fallnir, er það stór áhætta fyrir landssjóð að kaupa þá, og getur orðið til stórtjóns fyrir landið.