30.07.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 786 í B-deild Alþingistíðinda. (1223)

117. mál, tilboð frá norsku stjórninni

Valtýr Guðmundsson:

Mér finst þetta mál þannig vakið, að það sé fremur lítið verkefni fyrir þingnefnd, þar sem engar upplýsingar hafa fengist um það, hvað Norðmenn vilja láta í móti koma, ef við gerum einhverjar tilslakanir í löggjöf okkar, þeim í hag. Mér finst það líka vera talsvert varhugavert ef við færum fyrirfram að ákveða hversu langt við viljum fara. Norðmenn gætu hagað sínu tilboði eftir því og farið skemmra í tilslökunum sínum en ella.

Eg vil líka láta þess getið, að mér virðist vera farið að kveða of mikið að því, að stjórnin kasti allri ábyrgð yfir 50 á þingið. Hún þorir varla að koma með eitt einasta smáfrumvarp án þess að bera það áður undir þingið. Í öðrum löndum tíðkast sá siður, að stjórnin gerir flesta samninga — eg tala nú ekki um aðra eins og hér er um að ræða — upp á eigin spítur, og ber þá svo síðar undir samþykki þingsins. Enda er það líka heppilegast. Stjórnin á að hafa ábyrgðina, en gegn þinginu er aldrei hægt að koma fram neinni verulegri ábyrgð. Það er líka heppilegra, að stjórnin geri sjálf samninga eins og þessa, sem hér er um að ræða. Þá er líka miklu hægara að liðka til á báðar hliðar, eftir því sem menn fá að vita hvað í boði er.

Það eina sem nefnd gæti, að mínu áliti, gert í þessu máli, væri það, að athuga hvort nú eru sömu kringumstæður fyrir hendi og áður — hvort við höfum þann hag af lækkun á kjöt- og hesta-tolli, að það borgi sig að leggja nokkuð í sölurnar á móti —, en þegar það er athugað, þá ber stjórninni einni að ganga frá öllum samningum, enda á hún líka miklu hægara um vik þar en þingið.